Sósíalistaflokkurinn fengi 6,7% atkvæða skv. skoðanakönnun Prósents fyrir Morgunblaðið í vikunni. Það er ríflega helmings fylgisaukning frá liðinni viku og marktæk breyting, sem myndi færa flokknum fjögur þingsæti.
Hins vegar er fylgi Vinstri-grænna enn blýfast í 2,6% og að óbreyttu fellur flokkurinn af þingi.
Fylgisbreytingar annarra eru innan vikmarka fyrri viku, mismiklar þó. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með aðeins 12,3% en var síðast með 14,1%.
Samfylking lækkar áfram flugið, fær 21,6% en hafði 26,3% fyrir mánuði.
Fylgi Viðreisnar dvín einnig eftir hástökk í liðinni viku. Það er nú 17,1% en hafði áður farið úr 15,0% í 18,5%.
Fylgi Framsóknar haggast ekki og mælist 5,8% þriðju vikuna í röð, en var vikurnar á undan í rétt rúmum 6%.
Flokkur fólksins bætir óverulega við sig, er í 11,5%, en sé litið aftur sést að hann hefur þokast um rúmt prósentustig undanfarnar fimm vikur.
Sú viðbót hjá Flokki fólksins er hófleg út af fyrir sig, en á hinn bóginn er hneigðin öll á eina leið; flokkurinn er að bæta við sig. Rétt eins og hneigðin hjá Samfylkingu er á hinn veginn.
Af slíkum hreyfingum má draga ályktanir óháð því hversu nákvæmar mælingarnar eru, en vikmörk eru há, 4-5 prósentustig hjá fylgismeiri flokkunum.
Haldist þær hneigðir gæti Samfylking farið niður í 18% í lok mánaðar en Flokkur fólksins í rúm 12%. Meiri og óvissari hreyfing er á borgaralegu flokkunum þremur, en ekki minni spenna um hvort Sósíalistar nýti skriðþungann frá þessari viku og sópi vinstra hornið betur.