Hamborgartréð sótt í Skorradal

Viktor Steingrímsson, Sigurður Jökull Ólafsson og Aron Snær Fannarsson við …
Viktor Steingrímsson, Sigurður Jökull Ólafsson og Aron Snær Fannarsson við Hamborgartréð nýja. Til hægri má sjá þegar fyrirrennari þess var tekinn niður. Samsett mynd/Ljósmynd/Jóhann Páll Guðnason/mbl.is/Eggert Jóhannesson

Starfsmenn Faxaflóahafna, Sigurður Jökull Ólafsson og Jóhann Páll Guðnason, brugðu undir sig betri fætinum í vikunni og fóru að leita að heppilegu jólatré í Skorradalnum.

Sigurður Jökull segir að eftir langa og mikla göngu um heiðar og skóga uppsveita Borgarfjarðar hafi þeir loks fundið fallegt 14 metra hátt grenitré.

„Eftir mælingar og úttektir Viktors Steingrímssonar og Arons Snærs Fannarssonar, skógarhöggsmanna hjá Landi og skógum í Skorradal, voru allir sammála að þetta yrði Hamborgartréð sem ætti eftir að prýða Miðbakkann, öllum til gleði og yndisauka sem heimsækja Gömlu höfnina yfir hátíðarnar,“ segir Sigurður.

Íslendingar sjálfbærir á jólatré

Hamborgartréð á sér langa sögu sem nær allt aftur til ársins 1965. Í ár munu ljósin á trénu verða tendruð á Miðbakkanum, við hátíðlega athöfn á kosningadaginn 30. nóvember klukkan 17:00.

Lengst af voru jólatrén send frá Hamborg í Þýskalandi sem þakklætisvottur fyrir velgjörðir útgerðarmanna og sjómanna á eftirstríðsárunum.

„Núorðið erum við Íslendingar orðnir sjálfbærir á jólatré og því er ekki lengur siglt landa á milli með tréð heldur er íslensk skógrækt á svæði Faxaflóahafna styrkt í staðinn,“ segir Sigurður Jökull. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka