Viðreisn kveðst ekki lengur vilja banna nýskráningu á bensín- og díselbílum á næsta ári þó svo segi í málefnaskrá flokksins. Til stóð að breyta málefnaskránni á næsta landsþingi flokksins þar sem breytingar hafa verið gerðar í málaflokknum á liðnu ári.
mbl.is greindi frá því fyrr í dag að samkvæmt málefnaskrá flokksins í umhverfis- og auðlindamálum, sem samþykkt var á landsþingi flokksins fyrir rúmlega einu og hálfu ári, í febrúar 2023, að til standi að banna nýskráningu bensín og dísilbíla á næsta ári.
Í málefnaskrá Viðreisnar segir: „Nýskráningu á bensín- og díselbílum verði hætt árið 2025, nema með sérstakri undanþágu til ársins 2030.“
En formaður Viðreisnar segir nú að flokkurinn hyggist ekki lengur standa við þá „metnaðarfullu ályktun“ þar sem breytingar hafi verið gerðar í málaflokknum á liðnu ári sem geri markmiðið „óraunhæft“.
„Þessi metnaðarfulla ályktun er frá árinu 2023 og stóð til að endurskoða þessa ályktun fyrir kosningar á næsta landsþingi í febrúar 2025,“ skrifar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í skriflegri ábendingu til blaðamanns mbl.is.
„Við sjáum það að hlutdeild hrreinorkubifreiða í nýjum bifreiðum var mjög há fram til þessa árs, þegar tekin var aftur upp virðisaukaskattur á þessar bifreiðar. Á sama tíma var tekið upp kílómetragjald á rafmagnsbíla. Hvoru tveggja hefur dregið úr vilja almennings og bílaleiganna að fjárfesta í nýjum hreinorkubílum,“ bætir hún við og heldur áfram:
„Við þurfum að nýta þessa hvata betur til að fá fólk með okkur í lið og draga úr notkun og innflutningi á olíu og bensíni. Þar sem það er ekki verið að gera það er orðið óraunhæft að fara í eitthvað svona bann á næsta ári.“
Stefna fráfarandi ríkisstjórnar í loftslagsmálum gerir ráð fyrir því að nýskráningar bensín- og dísilbíla verði almennt óheimilar eftir árið 2030, en losun vegna ökutækja og innviða mældist 33% af samfélagslosun Íslands árið 2022.
Fráfarandi ríkisstjórnin hafði það jafnvel „í skoðun“ – samkvæmt uppfærði aðgerðaráætlun í loftslagsmálum – að flýta banninu til ársins 2028 en því var ekki fylgt eftir.
Samfylkingin vill einnig gera það „raunhæft“ að banna nýskráningu slíkra ökutækja frá og með 2025.
Í stefnu Vinstri grænna er einnig tekið fram að banni við nýskráningu bensín- og dísilbifreiða „þurfi að flýta“ en skýr tímarammi er ekki gefinn þar upp.