„Ekkert okkar sem ekki hefur gengið í gegnum það sem þið hafið upplifað, getur sett sig í spor ykkar, svo það ætla ég ekki að reyna að gera.“
Þetta sagði Halla Tómasdóttir forseti Íslands þegar hún ávarpaði Grindvíkinga við samverustund í Grindavíkurkirkju í gærkvöldi. Eitt ár var í gær liðið frá því Grindvíkingum var gert að rýma bæinn vegna mestu náttúruhamfara aldarinnar.
„Ég vil heldur gera heiðarlega tilraun til að horfa til þess sem er þakkarvert og velta upp hugleiðingum um hvað skiptir máli þegar áföll af þessu tagi dynja á sem ekki er séð fyrir endann á,“ sagði Halla.
Halla sagði það ekki sjálfgefið að búa í samfélagi sem tekur utan um þá sem missa heimili sín og samfélag.
„Það ber því að þakka fyrir þá staðreynd að hér standa Íslendingar alla jafna saman þegar svona miklar hamfarir eiga sér stað og skilja að við þurfum að rétta hvert öðru hjálparhönd,“ bætti hún við.
„Það má segja að Íslendingar séu þrautgóðir á raunastund og margir hafa lagt hönd á plóginn undanfarin ár til að mæta þessari náttúruvá og afleiðingum hennar,“ sagði forsetinn.
„Þarna hafa meðal annars Slysavarnafélagið Landsbjörg og björgunarsveitin Þorbjörn sérstaklega komið að verki, Rauði krossinn, lögreglan, Veðurstofan, almannavarnir, stjórn og starfsmenn bæjarins, sjálfboðaliðar í hjálparstöðvum, kirkjan, ættingjar og auðvitað fjölmargir aðrir sem ekki næst að telja upp hér.“
Halla sagði að í hennar huga standi upp úr að Grindvíkingar hafi ekki bara misst heimili sín heldur einstakt og öflugt samfélag.
„Ég hef séð og heyrt frá mörgum ykkar hversu mikið það reynir á. Á móti þeirri raun hafið þið, kæru Grindvíkingar, sýnt mikið úthald og seiglu,“ sagði hún.
„Þessa eiginleika hafa landsmenn lengi séð í íþróttaliðum frá Grindavík en ég veit að það sama verður sagt um Grindvíkinga almennt enda er ég gift fótboltamanni úr Grindavík og hef fylgst með ykkar öfluga íþróttastarfi, kvenfélagi, skólastarfi, fiskverkendum og sjómönnum um langt skeið.“
Halla sagði að einmanaleiki hefði aukist mikið í landinu og að undanförnu hefðu margir sorglegir atburðir átt sér stað hér – atburðir af mannavöldum.
„Við getum fátt gert við náttúruvá annað en að læra af reynslunni og reyna að gera sífellt betur – og það virðist okkur hafa tekist í hamförunum hingað til. En við verðum líka að beina athygli og stuðningi að þáttum sem snúa að okkur sjálfum og okkar samfélagi. Öruggt húsnæði, innviðir og atvinna skipta máli í Grindavík og á Íslandi, en án mennsku, samheldins samfélags, trúar á framtíðina og getu til að takast á við hana, er það allt innantómt.“
Hún sagði að það skipti sköpum að horfa til þessara þátta, taka utan um andlegu og samfélagslegu þættina og taka utan um hvert annað.
„Þá tel ég rétt að minna okkur öll á að taka sérstaklega vel utan um viðkvæmustu hópana, eldri borgara, börnin, nýbúa og aðra sem þurfa á félagslegum stuðningi að halda. Ég óska ykkur öllum velfarnaðar og treysti því að við stöndum keik þegar mótlætinu linnir, ennþá reyndari og úthaldsbetri en áður. Enn öflugri Grindvíkingar í enn öflugri Grindavík.“