Hringdi aftur og aftur úr númerum Íslendinga

Maðurinn var með breskann hreim og sagðist ekki ætla að …
Maðurinn var með breskann hreim og sagðist ekki ætla að hætta að hringja þar til Unnur tæki afstöðu til tilboðsins. Samsett mynd/AFP/Aðsend

Unnur Berglind Friðriksdóttir segir farir sínar ekki sléttar en óprúttinn aðili hefur ítrekað hringt í hana í dag til að bjóða henni einhvers konar viðskipti úr ólíkum íslenskum númerum.

Hún segir manninn hafa hringt úr nýju símanúmeri í hvert sinn og ekki ætlað að samþykkja að hún hefði ekki áhuga.

„Svo er þetta vinnusíminn minn þannig ég verð að getað svarað símanum, ég get ekki bara lokað honum,“ segir Unnur sem er formaður ljósmæðrafélagsins.

„Mjög aggressívur“

Hún hafi ítrekað tjáð honum að hún hefði ekki áhuga á að hlusta á viðskiptatilboðið en hann ekki hlustað.

„Hann var mjög aggressívur,“ segir Unnur og segir manninn hafa sagst ætla að halda áfram að hringja þar til hún myndi svara tilboðinu.

Að lokum hafi eiginmaður hennar svarað til að segja manninum að hætta að hringja en þá hafi maðurinn byrjað að hamast í honum um að afhenda Unni símann aftur svo hann gæti greint henni frá tilboðinu.

Óttast að hennar númer verði notað næst

Maðurinn var að sögn Unnar með breskan hreim en komst aldrei nógu langt til að greina henni frá efni tilboðsins.

Þegar hann hafi hringt hafi landsnúmerið +354 alltaf birst sem gerist vanalega ekki þegar venjuleg íslensk númer hringi. Númerin hafi öll verið skráð á íslenska einstaklinga.

„Það er smá óhugur í mér eftir þetta og líklega er mitt símanúmer komið á skrá og verður notað í svona ofbeldis- áreitissímtöl við aðra, því miður,“ segir Unnur.

„Þetta er bara mjög óþægilegt.“

Tilkynntu málið til lögreglu

Hún kveðst ekki hafa lent í sambærilegum grikk áður, en að á síðasta ári hafi hún þó reglulega lent í því að erlend símanúmer hringdu í hana til að reyna að selja henni hlutabréf.

Í dag svari hún því ekki erlendum númerum en getur ekki hætt að svara íslenskum númerum sem hún þekki ekki starfs síns vegna.  

Hún og maður hennar hafi fengið ráðleggingar um að tilkynna málið til kærumóttöku lögreglu og hafi þegar gert það. Þeim skiljist þó að símfyritæki leggi lögreglu ekki lið við að stöðva slík símtöl. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert