Metin með 40% örorku eftir líkamsárás

Rétt rúmlega tvítug kona hefur verið ákærð af embætti héraðssaksóknara fyrir stórfellda líkamsárás í mars árið 2022 gegn annarri konu, en afleiðingar árásarinnar eru þær að konan sem ráðist var á er nú metin með 40% varanlega örorku.

Embætti héraðssaksóknara gefur út ákæru í málinu, en þar er því lýst hvernig konan sem er ákærð hafi á heimili sínu ráðist gegn hinni konunni. Meðal annars dregið hana um íbúðina, reynt að skella höfði hennar utan í vegg , ýtt henni þannig að höfð hennar rakst í gluggakistu, barið höfði hennar ítrekað í gluggakistuna og slegið henni utan í veggi og hurðir.

Hlaut konan sem fyrir árásinni varð ýmiskonar áverka í kjölfar árásarinnar, meðal annars eymsli í höfði og kjálka, eymsli í hálshrygg og skerta hreyfigetu um hálshrygg, eymsli í mjóbaki, gat á hljóðhimnu og áberandi minnkaðan kraft í vinstri fæti og minnkað snertiskyn í öðrum fæti.

Þá hlaut konan jafnframt heilahristing.

Var varanlegur miski konunnar vegna árásarinnar metinn 35 stig og varanleg örorka 40%.

Fer sú sem fyrir árásinni varð fram á miskabætur upp á 5 milljónir og að viðurkennd verði skaðabótaskylda vegna þess líkamstjóns sem hún varð fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka