Snorri Másson, oddviti Miðflokksins í Reykjavík suður, svarar ummælum Svandísar Svavarsdóttur, formanni Vinstri grænna, um hann fullum hálsi. Hann segir að henni sé ekki treystandi til að meta hvað sé hatursorðræða, skyldi hún verða refsiverð.
Svandís sagði í hlaðvarpinu Ein pæling að henni þætti sorglegt að sjá að „ungur maður eins og Snorri Másson“ skyldi ala á ótta og fordómum og að hann væri farinn að „fiska í gruggugu vatni“ með umræðu um útlendingamál.
„Ég veit ekki alveg til hvers er vísað. Ég veit þó að ég hef varað við því að misjafn árangur okkar við aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi geti dregið dilk á eftir sér. Með tíð og tíma geti skapast mikil félagsleg vandamál sem koma verst niður á börnum af erlendum uppruna, sem ná til dæmis aldrei að fóta sig í skólakerfinu,“ skrifar Snorri í færslu á facebook.
Svandís sagði einnig í hlaðvarpinu að henni þætti átakanlegt að ungir karlmenn væru að hlaupa undir ljós sem sprottið væri af hatri og forréttindablindu gagnvart jaðarsettum hópum.
„Mann hreinlega sundlar við fúkyrðaflauminn. Þeir sem þekkja ekki betur til míns málflutnings hljóta að velta fyrir sér hvers konar illmenni stígur þar inn á stjórnmálasviðið. Ekki nóg með að ég „hlaupi undir hatursljósið“ heldur segir Svandís mig ábyrgan fyrir að „tendra bál haturs“,“ skrifar Snorri.
Hann segir það merkilegasta við málflutning Svandísar vera það að hún skuli ekki nefna stakt dæmi máli sínu til stuðnings. Hún láti sér einfaldlega nægja að „klína“ þessu á hann.
„Dæmið gengur þó ekki upp, því að ég hef aldrei á ævi minni tjáð mig af hatri í garð útlendinga, kvenna eða hinsegin fólks. Það get ég fullyrt með góðri samvisku, enda hata ég ekki nokkurn mann,“ skrifar Snorri og heldur áfram:
„Það er hins vegar rannsóknarefni hvers vegna sumu fólki er í mun að ákveða fyrir mann hvern maður hatar eða, eins og í mínu tilfelli, að maður hati einhvern yfirleitt. Hvað drífur Svandísi til þess að tala svona?“
Hann segir Svandísi leggja í rætna áróðursherferð gegn sér í von um að breiða yfir afleiðingar þeirrar útlendingastefnu sem flokkur hennar hefur rekið á síðustu árum. Hann segir Svandísi misbeita orðinu, hatur, og gengisfella það.
„Gleymum aldrei orðum þingflokksformannsins [Orra Páls Jóhannssonar] sem sagði gagnrýni á ríkisstjórn hans hatursorðræðu. Þau orð voru aldrei dregin til baka. Þau standa.
Í alræðisríkjum víða um heim er „hatursorðræða“ í raun bara orðræða sem stjórnvöld hata. Þar er þetta eitt öflugasta kúgunarvopnið í búrinu. Áhyggjuefnið er að vestræn lýðræðisríki (!) verða sífellt hrifnari af aðferðinni.“
Hann segir að ef menn vilji að hatursorðræða sé refsiverð samkvæmt lögum verði að vera hægt að treysta því fullkomlega að stjórnvöld myndu aldrei freistast til að víkka út skilgreininguna til að refsa andstæðingum.
„Vitandi hið sanna í málinu, get ég fullyrt að ásakanir Svandísar í minn garð eru lygi frá rótum. Ég finn það því á eigin skinni að þessum rótgróna stjórnmálamanni er ekki lengur treystandi fyrir þessari ábyrgð. Þegar stöðu hennar er ógnað stenst hún ekki freistinguna.
Það er í alvöru sorglegt.“