Tólf metra veggmynd af Miðgarðsormi var afhjúpuð í sundlaug Siglufjarðar um helgina. Fengu gestir laugarinnar að hlýða á sögulestur um orminn í flutningi leikarans Óðins Davíðssonar Löve.
Emma Sanderson, listamaður, grafískur hönnuður og teiknari, túlkaði goðsagnaveruna með rausnarlegum styrk frá sveitarfélaginu Fjallabyggð.
Emma segir verkið sprottið úr löngun til að efla frásagnarhefð og tengsl og að það gefi eldri kynslóðinni tækifæri til að deila sögu ormsins með yngri kynslóðinni.