Veiddu 500 dýr í óleyfi á síðustu öld

Seint á síðustu öld var stjórnun og eftirlit með hreindýraveiðum afar takmarkað. Hluta veiðidýra var úthlutað til bænda á Austurlandi, á þeim svæðum þar sem dýr gengu.

Á bænum Vaðbrekku, innst í Jökuldal voru það Sigurður Aðalsteinsson og bræður hans sem veiddu heimiliskvótann sem gat hlaupið frá fjórum og upp í tólf dýr á hausti. Þeir áttuðu sig snemma á því ungu mennirnir að þarna var hægt að gera betur.

Eftir að kvótinn hafði verið tekinn og dýrunum komið í verð og allt var uppurið þá var hægt að fara aftur og endurtaka leikinn.

Sigurður er gestur Dagmála Morgunblaðsins í dag og viðurkennir að þeir Vaðbrekkubræður hafi verið stórtækir í dýrunum. Stundað stórfelldan veiðiþjónað. Honum telst til að á þessum árum seint á öldinni hafi þeir fellt á milli fimm og sex hundruð dýr og langflest þeirra í óleyfi. Hann áttaði sig reyndar á því í samtalinu að hluti af þeim dýrum voru lögleg og að rétt væri að draga þau frá.

Einn veiðieftirlitsmaður var í hverri sveit á þessum tíma. Sigurður Aðalsteinsson var búinn að upplýsa eftirlitsmanninn í Jökuldal að þeim bræðrum gengi illa að finna dýrin og loksins ef þeir kæmust í færi við þau, þá hittu þeir illa. Enda fór það svo þegar nágrannar ræddu við eftirlitsmanninn um hvort Vaðbrekkustrákarnir væru ekki of frekir til fjárins að þá hló hann og sagði að þeir veiddu aldrei neitt.

Veiðiþjófarnir fóru í eftirlitið

Veiðiþjófnaður á hreindýrum, í það minnst á Vaðbrekku og fleiri bæjum heyrði svo sögunni til þegar tekið var upp nýtt kerfi þar sem leiðsögumenn voru menntaðir og það skilyrði sett að slíkir menn væru með í för þegar veiðimenn færu á hreindýr. Siggi segir glottandi að allir veiðiþjófarnir hafi farið í eftirlitið og þar með hafi sú iðja lagst af, á síðasta áratug síðustu aldar.

Nú er liðinn rúmur aldarfjórðungur frá því að leiðsögumannakerfið var tekið upp og eftir það hafa þessi mál verið í mun betri farvegi.

Sigurður er orðinn 67 ára og segist eiga mörg ár eftir. Pabbi hans var í leiðsögn til 85 ára aldurs og ekki ólíklegt að Sigurður verið föðurbetrungur þar. Hann labbar í það minnsta enn af sér flesta veiðimenn, ef því er að skipta.

Hressilegt viðtal við náttúrubarnið frá Vaðbrekku er réttur dagsins í Dagmálum. Þátturinn er opinn áskrifendum Morgunblaðsins.

Hreindýrstarfur. Mynd úr safni.
Hreindýrstarfur. Mynd úr safni. mbl.is/Sigurður Ægisson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka