Skoðun er hafin á þeim möguleika að nýta gufukatla í hvalveiðiskipunum Hvalur 8 og Hvalur 9 til að spýta inn heitu vatni á veitukerfi á Suðurnesjum ef til þess kemur að truflanir verða á afhendingu á heitu vatni til lengri tíma og þegar kalt er í veðri.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu forsætisráðherra um helstu verkefni stjórnvalda og mat á framtíðarhorfum vegna jarðhræringa og eldsumbrota á Reykjanesskaga, en skýrslan var birt á föstudaginn.
Í febrúar á þessu ári skapaðist alvarlegt ástand eftir að hraun fór yfir heitavatnsleiðslu frá Svartsengi til Fitja í Reykjanesbæ. Hafi það þær afleiðingar að heitavatnslaust varð á öllum Suðurnesjum í nokkra daga, en á svæðinu eru um 13 þúsund heimili, auk mikillar atvinnustarfsemi og alþjóðaflugvallarins í Keflavík.
Eins og þekkt er orðið tókst að halda húsnæði frostfríu með rafkyndingu og þá var svokölluð trukkaveita nýtt til að flytja heitt vatn frá Hafnafirði og inn á kerfin í Reykjanesbæ og Vogum til að halda hita á dreifikerfinu. Náðist svo að laga lögnina og koma aftur hita á sveitarfélögin.
Ljóst er að þær leiðir sem nýttar voru duga ekki ef til truflana kemur í lengri tíma eða þegar kalt er í veðri. Því hófst könnun á öðrum kostum til að sjá Suðurnesjum fyrir heitu vatni ef heitavatnsleiðslan fer aftur í sundur eða Svartsengi verður óstarfhæft.
HS Orka ávað til að byrja með að ráðast í borun á djúpum vinnslu- og nýtingarholum á þremur svæðum nærri Reykjanesbæ á landi í eigu ríkisins. Er það á Njarðvíkurheiði, Romshvalanesi nærri Rockville og við Vogshól. Í júní var svo samþykkt að ríkið tæki verkefnið yfir og greiddi kostnað við jarðhitaleitina.
Síðan þá hefur blásturspróf með borholuna á Rockvillesvæðinu meðal annars gefið góða raun, en sú prófun gaf 35 l/s af 70°C heitu vatni. Bordæla fyrir prófanir á holunni er væntanleg núna í nóvember og taka þá við prófanir sem gefa munu betri mynd af afkastagetu holunnar. Vonir standa til að borholan verði tilbúin til notkunar í lok desember.
Þá er einnig unnið að smíði fjögurra varmaskipta- og afloftunarstöðva svo nýta megi vatnið til húshitunar, en efnasamsetning vatnsins er þannig að ekki er hægt að nýta það beint inn á dreifikerfið.
Til að hægt sé að nýta vatnið úr borholunni við Rockville til húshitunar verða í upphafi settir upp tveir 5 MW gufukatlar til að súrefnisneyða upphitað vatn sem svo er dælt inn á veitukerfið. Þar streymir heitur jarðsjór sem nýtist til forhitunar á köldu vatni í varmaskiptastöð, en gagnast vegna seltu ekki beint inn á dreifikerfið. Með borholunni og gufukötlunum tveimur er áætlað að hægt sé að framleiða samtals 50 l/s af 80-85°C heitu vatni.
Til samanburðar er talið að a.m.k. 50 l/s af þetta heitu vatni þurfi til að halda veitukerfinu frostfríu, en eigi að halda húsnæði á Suðurnesjum einnig frostfríu þarf líklega um 150-200 l/s.
Er meðal annars til skoðunar varmainnspýting frá gufukötlum, en með sex 10 MW gufukötlum til viðbótar við þær varmaskipti- og afloftunarstöðvar sem talað er um væri hægt að fá 200 l/s af 102°C heitu vatni.
Tengt þessu er hafin skoðun á þeim möguleika að nýta gufukatlana í hvalveiðiskipunum Hvalur 8 og Hvalur 9, en samkvæmt athugun ÍSOR geta þeir afkastað samanlagt um 60 l/s af 60°C heitu vatni. Yrðu skipin þá líklega staðsett í höfninni í Helguvík eða Njarðvíkurhöfn, en verið er að skoða hvor staðurinn henti betur varðandi tengingu við dreifikerfi HS Veitna.