Slasað barn fær ekki styrk vegna leigu á hjólastól

Marteinn gagnrýnir það að leiga á hjálpartækjum til skemmri tíma …
Marteinn gagnrýnir það að leiga á hjálpartækjum til skemmri tíma sé ekki niðurgreidd. Samsett mynd/Colourbox/Aðsend

Tíu ára stúlka sem lenti tvisvar í óhappi á skömmum tíma og slasaðist á báðum fótum, fær ekki styrk vegna kaupa eða leigu á stoð- og hjálpartækjum frá Sjúkratryggingum Íslands, þar sem notkun á búnaðnum mun ekki vara lengur en í þrjá mánuði.

Faðir stúlkunnar segir að án hjólastóls geti stúlkan ekki komist í skólann eða sinnt neinu félagslífi vikum saman. Þar fyrir utan komist hún ekki á milli herbergja heima hjá sér nema haldið sé á henni.

Sjálfur segist hann ráða við kostnað vegna leigu á hjálpartækjum, þó um sé að ræða töluverðar upphæðir, en hann bendir á að það búi ekki allir svo vel. Foreldri með lítið á milli handanna gæti væntanlega ekki staðið straum af kostnaðinum.

Getur verið stór biti fyrir marga

Fyrra óhappið átti sér stað á handboltamóti fyrir rúmum mánuði síðan og sleit dóttir hans þá liðbönd í ökkla á hægri fæti og reif frá beini. Stúlkan þurfti að fá svokallaða loftspelku sem sjúkratryggingar greiða ekki fyrir, en hún kostaði tæplega 30 þúsund krónur.

„Þetta snýst ekki um peningana sem slíka, heldur um þjónustuna. Ég get alveg borgað þetta þó þetta sé alveg biti, en hvað með alla hina sem hafa ekki efni á þessu. Þess vegna er ég að gagnrýna hvernig þetta kerfi virkar,“ segir Marteinn Ingason, faðir stúlkunnar, í samtali við mbl.is.

Stígur varla í fæturna næstu vikurnar 

Dóttir hans staulaðist um á hækjum í nokkrar vikur en átti svo samkvæmt læknisráði að reyna að stíga aðeins í fótinn. Fyrir viku síðan lenti hún svo í því óhappi að detta fyrir utan heima hjá sér og snúa sig illa á ökkla á vinstri fæti.

„Hún var sett í röntgen en þeir gátu ekki sagt til um áverkann strax, hún var svo bólgin, þannig að hún var sett í gifs,“ útskýrir Marteinn. Stúlkan á tíma hjá lækni á morgun svo enn er óvíst hve lengi hún þarf að vera í gifsi.

„En miðað við áverkana þá hugsa ég að hún sé ekki að fara að stíga í fæturna að neinu viti næstu vikurnar. Staðan á henni er þannig að hún er nýfarin að haltra á hægri fæti, en getur ekki sett allan þungann á hann. Hún getur engan veginn sett þungann á vinstri fótinn sem hún var að slasa sig á. Þannig að hún er orðin ófær um að fara á milli staða.“

„Hún sagði bara að kerfið leyfði það ekki“

Íbúð fjölskyldunnar er á tveimur hæðum svo foreldrarnir hafa borið stúlkuna upp og niður stigann síðustu daga, en Marteinn hafði samband við Sjúkratryggingar til að kanna hvort hægt væri að fá hjólastól fyrir hana.

„Hugmyndin var sú að þannig væri hægt að færa hana til á neðri hæðinni, á milli sófa, á klósettið og svo að hún gæti farið með okkur eitthvað. Við gætum farið með hana í hjólastólnum út í bíl og hún gæti mætt í skólann.“

Starfsmaður Sjúkratrygginga vísaði hins vegar í reglugerð sem kveður á um að sé búnaðurinn ekki til afnota lengur en í þrjá mánuði, þá sé kostnaður við leigu eða kaup á honum ekki niðurgreiddur.

„Hún sagði bara að kerfið leyfði það ekki,“ segir hann, en kostnaður við að leigja hjólastól í tæpa þrjá mánuði getur numið tugum þúsunda.

Hefur mikil áhrif að fá ekki hjálpartæki

„Segjum svo að þetta ástand myndi vara í allt að þrjá mánuði og ég hefði ekki efni á að greiða þetta. Þá er gert ráð fyrir því að hún komist ekki í skólann og þá er heil önn farin. Hún finnur til við allar hreyfingar ef hún hefur ekki rétt tæki til að notast við. Félagslífið hennar er horfið. Fyrir tíu ára barn er það mjög sálrænt erfitt,“ segir Marteinn. Þá bendir hann einnig á að foreldrarnir séu líka mikið fastir heima við á meðan.

„Þetta eru ekki stórar upphæðir fyrir Sjúkratryggingar, en eru þungur baggi fyrir fólk sem hefur lítið sem ekkert á milli handanna. Ef fólk hefur ekki efni á þessu þá er þetta að fara að bitna svo mikið á lífi barnsins. Þó þetta sé stuttur tími þá getur þetta haft gríðarleg áhrif.“

Lágmarksgjald fyrir leigu á hjólastól hjá hjálpartækjaleigunni Mobility.is er 12 þúsund krónur og innifalið í því er sjö daga notkun. Hver dagur umfram það kostar þúsund krónur.

Hjálpartæki stundum lánuð frá spítölum

Í svari frá Sjúkratryggingum Íslands kemur fram að verkefni Sjúkratrygginga snúi að því að útvega fólki hjálpartæki til lengri notkunar en þriggja mánaða, til að auðvelda einstaklingum til að takast á við daglegt líf.

Venjan sé sú að fólk kaupi eða leigi hjálpartæki eins og hækjur og hjólastóla eftir slys. Sjúkratryggingar hafi hins vegar í gegnum tíðina gefið göngugrindur og hjólastóla til spítala, meðal annars til að lána fólki vegna notkunar í skemmri tíma. Í einhverjum tilfellum hafi slík hjálpartæki verið lánuð heim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka