„Við vonuðumst eftir góðri mætingu en hún fór langt fram úr væntingum,“ segir Elísabet Gísladóttir, formaður íbúasamtaka Grafarvogs, um íbúafund sem fór fram í Rimaskóla í kvöld um fyrirhuguð þéttingaráform í Grafarvogi
Segir hún að eitthvað á milli 5-600 manns hafi látið sjá sig sem sýni að fólki sé mikið niðri fyrir vegna þéttingaráformanna.
Hún segir umræðuna hafa verið góða og að fram hafi komið margar góðar spurningar frá íbúum hverfanna í Grafarvogi.
Þá fóru nokkrir íbúar með erindi þar sem rýnt var í tölfræðina á bak við áformin og segir Elísabet þau hafa vakið athygli.
„Þetta var sett upp í skýrari myndum þannig að fólk skildi í raun og veru hvað lægi undir. Að þessir innviðir séu aldeilis ekki að standa undir þessu og fólk er náttúrulega bara hrætt út af því að það hefur reynslu af Gufunesinu. Þegar það var ekki búið að byggja neitt og engar samgöngur og því um leið. Fólk er náttúrulega svolítið brennt af því.“
Segir hún Einar Þorsteinsson borgarstjóra hafa mætt á fundinn og telur þá einnig alla borgarfulltrúa hafa mætt.
„Svo voru fulltrúar allra framboða í Reykjavík norður fyrir næstu alþingiskosningar.“
Það fara þarna fram opnar umræður með borgarstjóra og borgarfulltrúum, hvað kom þar fram?
„Í raun ekkert annað heldur en það að borgarstjóri segi að þetta sé nú kannski einhver misskilningur og þetta sé bara rétt á byrjunarreit og að það sé það sem fólk þurfi að hafa í huga.
En við erum bara búin að reka okkur oft á það. Eins og t.d. kemur fram í hans yfirlýsingu þegar hann fór að kynna þetta, að þeir ætli bara hreinlega í framkvæmdir í vor. Þannig það er ekki mikill tími til þess að fólk átti sig.“
Þá segir hún íbúa hafa látið í ljós óánægju sína með kynningu þéttingaráformanna sem Elísabet segir vera að eiga sér stað í bakgörðum fólks án þess að sumir hefðu vitað af því en hún nefnir að ekki allir séu á Facebook eða sjái fréttirnar í blöðunum, því hafi einhverjir íbúar ekki vitað takmarkað um þau.
„Svo er þetta náttúrulega alveg galið að láta sér detta í hug að þvinga einhverjum nýjum lífstíl upp á íbúa ef íbúar vilja það ekki og eru ekki tilbúnir til þess.“
Er mikil samstaða um það?
„Ofboðsleg samstaða. Andinn á fundinum, þótt fólk væri reitt og kom fram og setti fram spurningar og talaði um að það væri reitt, það var samt svona einhver léttir yfir því að finna þessa rosalegu samstöðu og þessa samkennd sem maður finnur hjá íbúum.“
Þá segir Elísabet öll hverfin standa saman þrátt fyrir að áformin bitni meira á sumum hverfum frekar en öðrum.
„Þegar það er ráðist á eitt þá er ráðist á okkur öll.“
Finnst þér líklegt að borgarstjórn taki þetta til sín?
„Já, ég held það og þeir sem að stóðu upp þarna, bæði í raun og veru þeir í borginni, þó að þeir reyndu náttúrulega svolítið að draga í land og frambjóðendur fyrir kosningar, að þeir töluðu allir um að þetta hefði verið svolítill tímamótafundur.“
Jafnframt segir hún að fjölmenni á fundinum og mæting frá frambjóðendum í norðurkjördæmi Reykjavíkurborgar hafi vonandi haft þau áhrif að raddir íbúa hafi náð til borgarstjórnar.
Þá talar Elísabet einnig fallega um næstu kynslóð íbúa í Grafarvoginum.
„Það er að koma ný kynslóð inn sem íbúar með samtök sín á milli. Þetta er annars konar taktur sem við höfum þurft að beita vegna þess að það er verið að ráðast á öll hverfin í einu. Áður var það eitt og eitt hverfi eða ákveðin hverfi.“
Segir hún að nú sé verið að ráðast á öll hverfin í einu og hafi þannig íbúar sameinast í hverju hverfi fyrir sig og búið til samtök sem hafa svo unnið saman á miðlægum grunni til þess að stilla saman strengi.
„Þetta er nýtt og þetta er alveg ofboðslega áhrifaríkt og ég verð bara að segja það að ég dáist að þessu unga fólki. Önnur kynslóðin hérna. Við vorum kannski öflug hérna á sínum tíma en þetta fólk lofar góðu. Þetta verður enn þá öflugra en við nokkurn tímann vorum,“ segir Elísabet og bætir við að brennandi áhugi hinnar nýju kynslóðar hafi sést vel á fundinum.
„Andinn var svona á fundinum. Þessi brennandi samkennd og samstaða. Við ætlum sko að verja hverfið okkar.“
Hver eru svo næstu skref?
„Núna ætlum við að senda borgarfulltrúum glærurnar og þessa vinnu sem fór af stað og bíða eftir því hvaða útspil þau ætla að senda til okkar næst, eins og borgarstjóri sagðist vera að vinna í.
Við höldum áfram að þétta raðirnar hér.“
Eru þið vongóð?
„Ég veit það ekki. Þetta er búið að valda ofboðslega mikilli vanlíðan hjá fólki og óöryggi. Hvað verður? Hvernig verður framtíðin? Hvernig verður skipulagið hérna? Hvernig verður líf mitt? Fólk hefur haft áhyggjur af því.“
Hún segir þó að fundurinn hafi verið hugljúfur og að komið hefði skýrt fram að íbúum sé ekki sama um söguna né náttúruna.
„Ef það verður farið í náttúruna þá er það óafturkræft. Það þarf að vanda þetta. Fólk er ekkert endilega á móti þéttingu eða að laga til og gera hverfið fallegra heldur er það þessi ofurþétting, þetta offors að þvinga alla í einhverja borgarlínu sem enginn veit hvað er og hún er ekki komin.“
Þannig þið kallið líka eftir meira skipulagi?
„Já, og við erum svo sannarlega til í að fara í samráð, og þá raunverulegt samráð, ekki þetta sýndarsamráð sem þau hafa verið að tala um og kynna af því það er bara ekki nóg.“