Hjólar í Höllu: „Skeytir engu um sannleikann“

Halla sagði að hún hefði gengið í stjórnmál vegna meintrar …
Halla sagði að hún hefði gengið í stjórnmál vegna meintrar andstöðu Sjálfstæðisflokksins við að tryggja orkuöryggi almennings. Unnur Brá hefur svarað þessari fullyrðingu fullum hálsi. Samsett mynd

Unnur Brá Konráðsdóttir, aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, hefur svarað í Höllu Hrund Logadóttur, oddvita Framsóknar í Suðurkjördæmi, fullum hálsi vegna greinaskrifa þeirrar síðarnefndu.

Halla Hrund birti færslu á Facebook á dögunum þar sem hún skrifaði:

„Andstaða Sjálfstæðisflokksins við tilraunum mínum sem orkumálastjóra til að tryggja orkuöryggi heimilanna í landinu, þ.á.m. við neyðarástæður eins og þessar, eru bókstaflega ástæðan fyrir því að ég fór í framboð í vor og aftur núna.“

Unnur Brá skrifaði fyrr í dag langa færslu á Facebook þar sem hún svarar Höllu fullum hálsi og segir að það eigi ekki við rök að styðjast að halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn hafi unnið gegn því að tryggja orkuöryggi almennings, hvað þá Suðurnesjamanna.

Svarið ekki sérlega þægilegt

„Það hefði verið einnar messu virði fyrir oddvitann að velta því fyrir sér hvers vegna frumvarp um breytingar á raforkulögum til að tryggja raforkuöryggi heimilanna sem Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra lagði fram var ekki afgreitt nú í vor, þrátt fyrir að atvinnuveganefnd hefði afgreitt frumvarpið.

Frumvarpið tók nokkrum breytingum í meðförum nefndarinnar – breytingum sem unnar voru í samráði fyrir ráðuneytið, Orkustofnun og aðra hagaðila. Halla Hrund ætti að spyrja forystufólk Framsóknarflokksins hvort andstaða þeirra hafi komið í veg fyrir að frumvarpið náði ekki fram að ganga. Svarið verður ekki sérlega þægilegt ef svarað er af hreinskilni,“ skrifar Unnur.

Unnur segir að frumvarpið hafi verið strax afgreitt af þingflokki Sjálfstæðisflokksins en sömu sögu sé ekki að segja um þingflokka Framsóknar og Vinstri grænna.

„Kannski að oddvitinn, sem virðist vera búinn að koma sér fyrir í sérhönnuðu glerhýsi, snúi sér að því að gagnrýna félaga sína í Framsóknarflokknum. En kannski blindar bjálkinn sýn,“ skrifar Unnur.

Segir Höllu hafa verið andsnúna aukinni orkuöflun

Hún segir að Halla Hrund sé að hagræða sannleikanum til þess eins að reyna fegra sig fyrir þjóðinni.

„Fyrrverandi orkumálastjóri skeytir engu um sannleikann frekar en þegar hún var í embætti. Dæmin eru því miður mörg eins og kom í ljós í fjölmiðlum þegar hún var í forsetaframboði sl. vor,“ skrifar Unnur og bendir á það þegar Halla undirritaði í umboðsleysi viljayfirlýsingu fyrir Íslands hönd við ráðherra í Argentínu sem var einnig gömul skólasystir Höllu úr Harvard.

„Það sem stóð fyrrum orkumálastjóra helst fyrir þrifum í sínu fyrra embætti var megn andstaða hennar við aukna orkuöflun í landinu og skilnings- eða skeytingarleysi gagnvart hlutverki sínu, lögum og stjórnsýslureglum eins og dæmin sanna.“



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka