„Eins og við séum að leggja börn á hlaðborð“

45 prósent allra kynferðisbrota sem tilkynnt voru til lögreglu í …
45 prósent allra kynferðisbrota sem tilkynnt voru til lögreglu í fyrra, voru gegn börnum. Ljósmynd/Colourbox

Um 280 börn í 8. til 10. bekk svöruðu því játandi í Íslensku æskulýðsrannsókninni að einhver fullorðinn hefði haft við þau samfarir eða munnmök. Um 750 börn á sama aldri svöruðu því játandi að jafnaldri hefði beitt þau slíku kynferðisofbeldi. Þegar spurt var út í kynferðislega snertingu voru tölurnar enn hærri. Rannsóknin var lögð fyrir nemendur í íslenskum grunnskólum síðastliðið vor og niðurstöðurnar kynntar í byrjun nóvember.

Tölurnar eru sláandi og segir Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, verkefnastýra ofbeldis- og kynheilbrigðismála hjá Barnaheill, stöðuna töluvert verri en flestir geri sér grein fyrir. Þreytu hafi gætt varðandi umræðu um kynferðisofbeldi og málaflokkurinn orðið útundan. Fyrir vikið hafi ofbeldið þrifist sem aldrei fyrr.

Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, verkefnastýra ofbeldis- og kynheilbrigðismála hjá Barnaheill
Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, verkefnastýra ofbeldis- og kynheilbrigðismála hjá Barnaheill Ljósmynd/Erla Stefánsdóttir

„Þetta eru ótrúlega háar tölur, þetta eru börn á grunnskólaaldri og þetta eru bara þrír árgangar. Ég held að langfæstir geri sér grein fyrir því hversu stórt vandamál þetta er og hversu mörg börn eru undir. Ég held að mjög fáir geri sér grein fyrir því. Þetta er ekki í lagi og er óásættanlegt,“ segir Kolbrún í samtali við mbl.is. 

„Ef við leggjum þetta saman og ímyndum okkur árgangana í kring, þá fer þetta vel yfir 1.000 og jafnvel 2.000 börn. Það er stór hluti barna sem hefur verið beittur alvarlegu kynferðisofbeldi og meira en helmingur þeirra er ekki að segja frá því. Ofbeldið þrífst í þögninni og við vitum að fullorðnir sem beita börn kynferðisofbeldi beita yfirleitt börn sem þeir þekkja ofbeldi og vita að þeir eiga traust hjá.“

Tilkynningum fjölgað um 300 prósent

Kolbrún bendir á að í ársskýrslu Stígamóta komi fram að ofbeldi eigi sér oftast stað á heimili barnsins, heimili geranda eða sameiginlegu heimili. Ef brotið tengist ókunnugum fullorðnum einstaklingi hafi yfirleitt einhver tæling átt sér stað á undan, þar sem viðkomandi býr til traust.

„Ef barnið treystir þér, þá er það ólíklegra til að segja frá,“ útskýrir hún.

Á ráðstefnu sem Kolbrún sótti um daginn kom fram að tilkynningum um tælingu á netinu hefði fjölgað um 300 prósent á milli áranna 2021 til 2023 hjá Missing Children Europe.

„Þetta er bara eitthvað sem við verðum að opna augun fyrir. Það er svo auðvelt fyrir eina manneskju að senda út net í gegnum netið. Hún sendir kannski vinabeiðni á 500 börn, 480 börn segja nei en 20 já. Og hvað kemst hún langt með þau. Við verðum að ræða þessa hluti miklu betur og fræða foreldra miklu betur um hætturnar á netinu. Í rauninni er bara eins og við séum að leggja börn á hlaðborð fyrir þessa menn, því netið er kjörinn vettvangur til að finna einhvern til að brjóta á.“

Kolbrún segir auðvitað ekki hægt að vita með fullri vissu hvort tilkynningum hafi fjölgað vegna meiri umræðu og vitundarvakningu eða vegna fjölgun atvika.

„En mér finnst engu að síður mjög óhugnanlegt hversu fá börn segja frá. Við vitum að af öllum tilkynningum um kynferðisbrot til lögreglu í fyrra, var 45 prósent gegn börnum, en það er bara brotabrot af því sem er í gangi.“

Átta sig ekki alltaf á að um ofbeldi er að ræða

Þá bendir hún á að um 30 prósent allra þeirra sem leituðu til Stígamóta í fyrra hafi verið að vinna úr ofbeldi sem þau urðu fyrir áður en þau urðu tíu ára. 

„Hvað er þetta fólk búið að vera að glíma við? Öll orðin eldri en 18 ára núna þannig að það eru minnsta kosti 8 ár síðan ofbeldið átti sér stað, en kannski einhverjir tugir ára. Við vitum að afleiðingarnar hafa áhrif á svo ótrúlega margt. Hvað er þetta fólk að bera af sársauka í bakpokanum sínum sem við vitum ekkert um og getum ekki hjálpað fólki, af því það segir ekki frá. Við verðum að sinna þessu betur þannig við getum gripið fólk strax og reynt að hindra þetta eins og við mögulega getum.“

Birtingarmyndir vanlíðanarinnar séu oft mjög alvarlegar eins og sjálfskaðandi hegðun, vímuefnaneysla og ofbeldishegðun.

„Rannsóknir sýna að stundum þora börn ekki að segja frá. Stundum reyna þau að segja frá án þess að tala mjög skýrt, þau gefa eitthvað í skyn eða gefa okkur merki með hegðun eða líðan og við erum ekki að lesa rétt í aðstæður. Stundum eru þau hrædd um að skömmin sé þeirra, að þau hafi gert eitthvað rangt. Stundum eru þau ekki viss um að þetta sé ofbeldi því þetta er einhver sem þau elska, treysta og virða. Þau kannski fatta það ekki fyrr en miklu seinna að þetta var ekki í lagi.“

Fólk orðið þreytt á að tala um kynferðisofbeldi

Aðspurð hvort við höfum sem samfélag mögulega sofnað á verðinum í forvörnum og fræðslu bæði til fullorðinna og barna, segir Kolbrún málaflokkinn hafa orðið útundan.

„Við erum öll alltaf að reyna að gera okkar besta en þessi málaflokkur hefur lent svolítið útundan. Maður finnur í samfélaginu að fólk er orðið svolítið þreytt á að tala um kynferðisofbeldi. Það hefur verið ákveðin mótstaða við þetta umræðuefni og fyrir vikið blómstrar þetta hjá þeim sem eru að brjóta gegn börnum. Af því það fær ekki athygli, við erum ekki að tala um þetta, við erum ekki að leita eftir rauðum flöggum eða reyna að setja hindranir í veg fyrir þá sem mögulega brjóta gegn börnum.“

Barnaheill hefur boðið upp á námskeið fyrir fólk sem starfar með börnum til þess að það átti sig betur á vandanum, sé meðvitaðra og eigi auðveldara með að leita eftir rauðum flöggum. Þannig geti fólk betur verið staðar og vísað þeim sem þurfa á rétta staði.

Kolbrún segist finna fyrir því að eftir slík námskeið sé fólk mun meira vakandi, vilji hafa verkferlana í lagi og grípa fyrr inn í.

„Það er líka mikilvægt að benda á að þeir sem eru með kynferðislegar hugsanir í garð barna, það eru úrræði í boði fyrir viðkomandi. Við erum með niðurgreidda sálfræðimeðferð. Við verðum að tala um þetta svo fólki viti og geti fengið hjálp.“

Líka hægt að plata skynsöm börn

Þá segir Kolbrún mikilvægt að fræða unga fólkið betur.

„Við sjáum í kynferðisbrotum á milli jafningja, þá er skortur á fræðslu. Skortur á samþykki, skortur á samtali, þau kunna ekki að lesa ekki mörkin og mörg hver eru kannski að fá sínar upplýsingar frekar úr klámi heldur en kynfræðslu. Þetta er eitthvað sem við þurfum að hamra á.“

Fræðslan sé besta vopnið í baráttunni gegn kynferðisofbeldi.

„Líka fyrir yngri kríli, að þau fái fræðslu um hvað má og hvað ekki og viti ef eitthvað er gert við þau að þau geti sagt frá því. Og að það þurfi að hjálpa þessum fullorðnu að gera betur. Að þau geti notað rétt heiti yfir kynfærin sín, að þau viti hverjir megi snerta þau og hvernig.“

Hvað snjalltækin og netið varðar sé mikilvægt fyrir foreldra að vera enn betur á verði og fylgjast með við hverja börnin eiga samskipti.

„Það er gott fyrir foreldra að hafa í huga, ef barnið hefur aðgang að heiminum með snjalltækinu sínu þá hefur heimurinn aðgang að barninu. Þannig við þurfum svolítið fylgjast með hverja barnið er að vingast við, við hverja er það að tala. Hver er að fylgja því upp í rúm á kvöldin. Foreldrar verða að átta sig á að þó að barnið þeirra sé skynsamt og vel upp alið þá getur það lent í klónum á einhverjum sem platar það upp úr skónum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert