„Mér fannst þetta nú svolítið fyndin frétt þarna í gær, sem hljómaði eins og verið væri að selja bara allar jarðir í Húnavatnssýslu,“ segir Guðmundur Hinrik Hjaltason húsasmíðameistari í samtali við mbl.is, en Guðmundur hafði samband við ritstjórnina til að ræða málið í kjölfar fréttaflutnings.
Hann á sjálfur jörðina Vesturhópshóla, gamla bújörð og kirkjustað í Vestur-Húnavatnssýslu, fæddist þar og bjó til tvítugs. Jörðin, sem er 1.360 hektarar, hefur nú verið til sölu í hálft annað ár án þess að dregið hafa til tíðinda og kveður Guðmundur varla að heitið geti að nokkur maður hafi sýnt Vesturhópshólum áhuga þrátt fyrir verulega myndrænt kynningarmyndskeið á lýðnetinu sem lesendur geta horft á hér.
Vísar Guðmundur til fréttar Stöðvar 2 og Vísis í gær þar sem sagði af erlendum fjárfestum og kaupahéðnum sem byðu margfalt verð fyrir jarðir í Húnavatnssýsu, en í Dagmálum hér á mbl.is var á mánudaginn enn fremur rætt við Steinþór Loga Arnarsson, formann Samtaka ungra bænda, sem kvað ásókn í jarðir hafa aukist og dæmi væru um að bankað væri upp á í nafni fjársterkra aðila sem kaupa vildu jarðir. Einn viðmælandi Vísis sagði erlent fyrirtæki hafa áhuga á að kaupa tuttugu jarðir, meðal annars með skógrækt í huga til að kolefnisjafna rekstur sinn.
„Það er varla spurt um mína jörð þannig að þetta er bara bull og ekkert annað,“ segir Guðmundur sem er ekki með búskap á jörð sinni og býr í Reykjavík. Hún er ekki í ábúð en fjölskylda hans heldur öllum húsum á Vesturhópshólum við svo sem glöggt má sjá í myndskeiðinu handan hlekksins hér að ofan.
„Þetta er nú einhver flottasta jörðin í Húnavatnssýslu og að það sé verið að kaupa upp jarðir er bara eitthvert kosningabull,“ segir húsasmíðameistarinn og er inntur eftir því hvort jörðin Breiðabólstaður sé þarna í nágrenni, þar sem goðorðsmaðurinn og höfðinginn Hafliði Másson bjó á tólftu öld og ritun á Íslandi hófst veturinn 1117 – '18 með ritun Vígslóða, ákvæðum þjóðveldisaldarlaga um manndráp og meingerðir, einnig nefnd Hafliðaskrá.
„Hún er sunnar í sveitinni, það eru fimm bæir á milli,“ svarar Guðmundur af jörð Breiðabólstaðs og nefnir aðra merkilega staðreynd. „Haraldur hringur landnámsmaður byggði bæ á Vesturhópshólum eftir að hafa haft vetursetu á stað sem nefndur var Hringsstaðir beint á móti Vesturhópshólum. Um þann stað sjást engin merki lengur,“ segir hann.
Sé mark takandi á Sturlubók, elsta handriti Landnámu, var Haraldur hringur maður ættstór og kom „skipi sínu í Vesturhóp og sat hinn fyrsta vetur þar nær, sem hann hafði lent og nú heita Hringsstaðir. Hann nam Vatnsnes allt utan til Ambáttarár fyrir vestan, en fyrir austan inn til Þverár og þar yfir um þvert til Bjargaóss og allt þeim megin bjarga út til sjóvar, og [bjó] að Hólum.“
Guðmundur húsasmíðameistari reynir því að selja fornt höfðingjasetur og gengur hvorki né rekur.
„Foreldrar mínir bjuggu þarna og afi og amma þar á undan, en þar á undan reyndar fæddist þarna fyrsti formaður Sjálfstæðisflokksins, Jón Þorláksson, og Þorlákur pabbi hans smíðaði kirkjuna á jörðinni,“ segir Guðmundur, „og ég fór nú að hugsa það einhvern tímann að þessi kirkja er vígð 1879, rétt áður en allir fóru að flýja land [til vesturheims], þá fór hann bara að smíða kirkju þannig að hann hefur verið svakalega duglegur kallinn,“ segir hann enn fremur, en í myndskeiðinu að ofan má enn fremur sjá kirkjuna að innan sem utan og virðist hún í góðu ásigkomulagi.
Og hefur enginn einu sinni komið að skoða?
„Jú, en þeir eru ótrúlega fáir. Ég hélt að þessi jörð færi á nóinu,“ svarar Guðmundur, „ég held þessu vel við, öll fjölskyldan mín og systur minnar, við máluðum til dæmis allt þarna 2019. Þannig að mér fannst nú bara fyndið að heyra þessar fréttir,“ segir Guðmundur Hinrik Hjaltason, húsasmíðameistari og jarðareigandi, um umræðu í vikunni um eftirspurn og tilboð er hlaupa á margföldu markaðsverði jarðnæðis norðan heiða.