Guðmundur Ragnarsson, fyrrverandi formaður VM, félags vélstjóra og málmtæknimanna, hyggst ekki kjósa Viðreisn í komandi kosningum en hann skipaði fjórða sæti flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður í síðustu kosningum.
Frá þessu greinir Guðmundur í færslu sinni á Facebook.
Þar segist Guðmundur segja sig úr flokknum vegna stefnuleysis flokksins í öllum málaflokkum.
„Ég get ekki áttað mig á því hver stefnan er, önnur en að segja það sem talið er að kjósendur vilji heyra til ná í atkvæði og komast í ráðherrastóla. En samt að segja ekki neitt um það hvað á að gera eða það eru engar raunhæfar lausnir til að setja fram,“ segir í færslunni.
Segir Guðmundur að áframhaldandi stuðningur við þéttingarstefnu á höfuðborgarsvæðinu muni eingöngu viðhalda verðbólgu og hærri vöxtum.
„Stjórnmálaflokkur sem ætlar ekki að viðurkenna þau efnahagsmistök sem búið er að gera þar, er ekki að fara að leysa nein vandamál.“
Þá mun hann ekki gefa upp hvaða flokkur hlýtur atkvæði hans í komandi kosningum.
„Er búinn að kynnast mörgu frábæru fólki þennan tíma, en nú skilja leiðir.“