Ráðhildur varpar ljósi á sóun í kerfinu

Guðlaugur Þór lét setja verkefnið á fót sem var unnið …
Guðlaugur Þór lét setja verkefnið á fót sem var unnið af Söru Lind og kolllega hennar, Hjörvari Steini. Samsett mynd

Gagnsæismódelið Ráðhildur er stjórntæki sem hefur litið dagsins ljós og er því ætlað að útrýma sóun, tvíverknaði og óskilvirkni í opinberum rekstri. Þegar hefur Ráðhildur sparað um 200 milljónir króna á ársgrundvelli í umhverfis-, orku og loftslagsráðuneytinu við sameiningu stofnana úr 13 í 8.

Þetta segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku og loftslagsráðherra, í samtali við mbl.is en það er hann sem sem fól Söru Lind Guðbergsdóttur og Hjörvari Steini Grétarssyni að hanna Ráðhildi samhliða störfum þeirra í stýrihópi við sameiningu stofnana.

„Ég er kominn með betri yfirsýn yfir alla mikilvægustu þætti í rekstri stofnana en ég hef áður haft á öllum mínum ferli sem ráðherra. Eitt er víst og það er að Ráðhildur er komin til að vera í umhverfis-, orku-, og loftslagsráðuneytinu og ég vona, sem skattgreiðandi, að Ráðhildur komi til með að hjálpa fleiri ráðuneytum í sinni hagræðingarbaráttu,“ segir Guðlaugur.

Gervigreind gæti hjálpað

Sara Lind segir í samtali við mbl.is að Ráðhildur varpi ljósi á sóun með því að veita heildstæða yfirsýn yfir lykilþætti í rekstri stofnana eins og launakostnað, mannauð, húsnæði og innkaup.

Hún segir að með samanburði og sjálfvirkum greiningum sé hægt að koma auga á umbótatækifæri þvert á kerfið.

Gervigreind er ekki notuð núna en Sara Lind segir samt að gervigreind gæti stutt við Ráðhildi með sjálfvirkri úrvinnslu gagna og spám sem myndi auðvelda forgangsröðun og ákvarðanatöku. Hún segir að það sé fjárfesting sem er vel þess virði að leggja út í.

Hjörvar Steinn Grétarsson vann verkefnið með Söru.
Hjörvar Steinn Grétarsson vann verkefnið með Söru. mbl.is/Ásdís

Tókst að spara 100 milljónir í einu tilfelli

Eruð þið með dæmi um sóun sem þetta fann?

„Já, til dæmis má nefna að Ráðhildur sýndi svart á hvítu hvar hægt væri að ná fram hagræðingu í húsnæðiskostnaði stofnana sem verið er að sameina. Þar var hægt að nýta betur þá fermetra sem ríkið er með á leigu og jafna þannig kostnað við skrifstofu- og atvinnuhúsnæði með tillit til fjölda starfsfólks. Í þessu eina dæmi tókst að spara um 100 milljónir króna á ársgrundvelli,“ svara Sara og bætir við að þá sé ótalinn ávinningur sem felst í því að losa um húsnæði í eigu ríkisins sem einnig er afleiða.

Hún segir að Ráðhildur hafi fundið dæmi um að verið var að borga tvisvar sinnum fyrir sömu hugbúnaðarleyfi auk þess sem búnaður var vannýttur.

„Þá leiddi greining á samningsskuldbindingum einnig í ljós hagræðingartækifæri sem eru fólgin í betri nýtingu á þeirri stoðþjónustu sem er nú þegar til staðar hjá miðlægum þjónustueiningum ríkisins, til dæmis í bókhaldsþjónustu og við umsjón tölvukerfa,“ segir Sara.

Hefur ekki fundið fyrir annarri eins yfirsýn

Guðlaugur Þór segir að frá því að hann hóf afskipti af stjórnmálum hafi hann alltaf barist fyrir hagræðingu í ríkisrekstri. Hann segir ríkisrekstur vera eins og eitt stórt heimilisbókhald þar sem þurfi að hafa yfirsýn yfir stöðuna til þess að geta tekið á fjármálunum.

„Þessi yfirsýn hefur að mínu mati ekki verið til staðar hjá ríkinu og ég hef fundið fyrir því í störfum mínum sem ráðherra,“ segir Guðlaugur.

Hann segir að hann hafi reynt að leggja áherslu á aukinni skilvirkni og betri nýtingu á skattfé í ráðuneytinu með því að fækka stofnunum. Ráðhildur hjálpi til við það.

„Ríkið á að fara vel með skattfé og veita á sama tíma góða þjónustu. Ráðhildur hefur nú þegar sannað virði sitt við sameiningar stofnana og nú þegar hafa breytingarnar sparað 200 milljónir króna á ársgrundvelli með fækkun leigufermetra, aukinni nýtingu á miðlægri stoðþjónustu ásamt því að takmarka sóun þegar kemur að hugbúnaðarleyfum og aðbúnaði starfsfólks,“ segir Guðlaugur og bætir því við að það sé stefna Sjálfstæðisflokksins að nýta Ráðhildi til að ná betri tökum á opinberum rekstri.

Mikil sóun fær að viðgangast

Sara Lind segir að hún og Hjörvar hafi vitað frá fyrri störfum hjá Ríkiskaupum að það skorti heildstæða sín yfir lykilþætti í rekstri stofnana. Hún segir í raun ótrúlegt að þetta hafi ekki verið gert fyrr.

Sara segir að hún og Hjörvar séu sannfærð um það að það séu gríðarleg hagræðingartækifæri í aukinni nýtingu gagna þvert á hið opinbera og að Ráðhildur sé til marks um það.

„Þegar maður kafar ofan í jafn stórt og flókið kerfi og ríkisreksturinn er þá kemur það á óvart hvað það er í raun mikil sóun sem fær að viðgangast og að ekki sé alls staðar að finna lausnamiðaða hugsun þegar kemur að því að róa í sömu átt og leysa áskoranirnar,“ segir hún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert