Atkvæði Grímseyinga komin til Akureyrar

Anna María afhendir Helgu Eymundsdóttur, formanni kjörstjórnar á Akureyri, kjörgögnin.
Anna María afhendir Helgu Eymundsdóttur, formanni kjörstjórnar á Akureyri, kjörgögnin. mbl.is/Margrét Þóra

Atkvæðum Grímseyinga hefur verið komið til Akureyrar.

Sautján Grímseyingar höfðu í gær greitt atkvæði utan kjörfundar eða allir þeir sem voru staddir á eyjunni ef undan er skilinn formaður kjörstjórnar í Grímsey, Anna María Sigvaldadóttir, en hún mátti ekki kjósa utan kjörfundar hjá sjálfri sér og kaus því utan kjörfundar á Akureyri í dag þegar hún hafði skilað af sér kjörgögnunum. 

Alls eru 49 Grímseyingar á kjörskrá.

Vikublaðið greindi fyrst frá. 

Gekk á milli húsa

Í samtali við mbl.is segir Anna að ákvörðun Grímseyinga um að kjósa utan kjörfundar hafi verið tekin vegna slæmrar veðurspár. Hún gekk því á milli húsa í gær og tóku allir íbúar vel í að kjósa utan kjörfundar. 

„Ég fór bara og talaði við alla augnliti til augnlits og spurði hvort allir væru sáttir við þetta og allir sögðu bara: „Að sjálfsögðu.““

Þrátt fyrir að allir þeir sem eru staddir í eyjunni hafi þegar kosið þá verður lögum samkvæmt að hafa kjörstað opinn í eyjunni í einhvern tíma á kjördag.

Grímseyingar hafa þá kost á að breyta atkvæði sínu skyldi þeim snúast hugur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert