„Við metum það þannig að þetta sé skref í rétta átt,“ segir Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands (KÍ), um rammasamkomulag sem samninganefndir kennara, ríkis og sveitarfélaga skrifuðu undir fyrr í dag.
Samkomulagið snýr að því hvernig skuli staðið að frágangi kjarasamnings og viðræðuáætlun næstu tvo mánuði. Þá var verkföllum frestað út janúar og samþykkt að halda friðarskyldu á meðan.
„Í okkar tilviki þá er búið að tryggja tvo hluti sem skipta okkur mjög miklu máli. Annars vegar það að á árinu 2025 verði tekið skref í átt að jöfnun launa á milli markaða og það er líka búið að fastsetja launatöfluauka í okkar samningum sem þýðir það að við munum fylgja þeim launahækkunum sem verða á almennum markaði,“ segir Magnús.
Tillagan felur einnig í sér að þann 1. janúar næstkomandi mun allt félagsfólk KÍ fá greidda eingreiðslu vegna launahækkana upp á 3,95 prósent.
Ríkissáttasemjari lagði tillöguna fyrir samninganefndirnar í gær og var samkomulagið undirritað um klukkan 15 í dag, að höfðu samráði við félagsfólk.
„Við vorum í samráði við okkar fólk í gegnum daginn, að hugsa hvernig þetta kæmi út í ljósi okkar markmiða. Og ákváðum í dag að samþykkja þetta vinnulag sem ríkissáttasemjari leggur upp með, í þessum hlutum sem eru þá tryggir hjá okkur.“
Magnús bendir þó að ekki sé um undirritun kjarasamnings að ræða en þegar komi að undirritun hans, hafi ákveðin atriði verið tryggð sem skipti kennara miklu máli.
„En það er löng leið eftir og mikið verkefni fyrir höndum.“
Samninganefndir hafa nú þegar verið boðaðar á fund á mánudaginn klukkan 9, þannig það verður ekki slegið slöku við í viðræðunum, að sögn Magnúsar.
„Núna höldum við bara áfram. Þessi vika leiddi okkur inn á ákveðinn veg sem við ætlum að reyna að feta áfram. Við förum bara öll í það að sjá til þess að ekki komi til aðgerða aftur í febrúar.“