Dregur saman með helstu flokkum en deilur harðna

Það mættust stálin stinn í leiðtogakappræðum Morgunblaðsins og mbl.is, en …
Það mættust stálin stinn í leiðtogakappræðum Morgunblaðsins og mbl.is, en þar komu leiðtogar allra framboða á landsvísu saman til að metast um stefnuna. Að ofan má sjá Bjarna Benediktsson formann Sjálfstæðisflokksins og Kristrúnu Frostadóttur formann Samfylkingar kýta um skatta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samfylkingin er með mest fylgi í lokakönnun Prósents fyrir Morgunblaðið, tæp 22%. Viðreisn lækkar í 18% og Sjálfstæðisflokkur reisti sig í 15%, en munurinn tölfræðilega ómarktækur.

Þetta eru svipaðar hreyfingar og í öðrum könnunum, en tölunum ber ekki vel saman. Í kosningaspá Metils eru þær vegnar með hliðsjón af fyrri fylgni kannana og úrslita. Samkvæmt henni eru Sjálfstæðisflokkur og Samfylking nær hnífjöfn í 18%, en Viðreisn með 16%.

Niðurstöður könnunar Prósents voru kynntar í upphafi fjörlegra leiðtogakappræðna í beinni útsendingu Morgunblaðsins og mbl.is frá Hádegismóum í gær. Þar tókust á leiðtogar allra tíu framboðanna sem bjóða fram á landsvísu, en þar var umræða um efnahags- og skattamál fyrirferðarmest, þótt Evrópuumræða tæki einnig nokkurt rými.

Af könnuninni að dæma verður ekki auðvelt að mynda ríkisstjórn að kosningum loknum, en kappræðurnar gáfu ekki heldur til kynna marga augljósa snertifleti í hugsanlegu ríkisstjórnarsamstarfi helstu flokka og raunar gneistaði iðulega á milli leiðtoganna.

Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingar telur ekki hjá aukinni skattheimtu komist, en Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokks og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar lögðust gegn því.

Evrópumálin voru ekki heldur til friðar fallin, því þótt Þorgerður Katrín vilji bera aðildarviðræður undir þjóðina við fyrsta tækifæri taldi Evrópusinninn Kristrún óhyggilegt að kljúfa þjóðina með því á komandi kjörtímabili; brýnni verkefni biðu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert