Flestir hafa Viðreisn sem annað val

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í kappræðum Morgunblaðsins.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í kappræðum Morgunblaðsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsmenn ganga að kjörborðinu á morgun og kjósa þann flokk sem þeir treysta til valda næstu fjögur árin.

Mikil spenna er fyrir niðurstöðum kosninganna og hefur fylgi flokkanna verið á talsverðri hreyfingu síðustu vikur en virðist hafa nokkurn veginn fest sig í sessi nú undir lok baráttunnar. 

Lokakönnun Prósents fyrir kosningarnar var birt í kappræðum Morgunblaðsins í gær þar sem Samfylkingin mældist stærst allra flokka með 22% fylgi, Viðreisn kom þar á eftir með 18%, Sjálfstæðisflokkurinn með 15%, Flokkur fólksins 11%, Píratar, Sósíalistar og Framsókn með 6%, Vinstri græn með 3% og Lýðræðisflokkurinn með 1% fylgi.

Hér má sjá fylgi flokkanna í lokakönnun Prósents.
Hér má sjá fylgi flokkanna í lokakönnun Prósents.

Sjálfstæðisflokkurinn gæti fengið meira fylgi

Í niðurbroti frá Prósent má rýna í þessar tölur en þar má sjá að þeir sem hyggjast kjósa Sjálfstæðisflokkinn eru marktækt vissari um val sitt en kjósendur annarra flokka eða 95% vissir. Kjósendur Samfylkingarinnar og Flokks fólksins voru 91% vissir, 90% kjósenda Miðflokksins og Vinstri grænna, 89% kjósenda Framsóknarflokksins, 88% kjósenda Viðreisnar og 87% kjósenda Sósíalistaflokksins.

Kjósendur Pírata eru marktækt minna vissir en kjósendur flestra annarra flokka eða 84% vissir.

Í tilkynningu frá Prósent segir að þetta geti bent til þess að Sjálfstæðisflokkurinn muni fá aðeins meira fylgi úr kjörkössunum en síðasta könnun benti til og Píratar fengið aðeins minna fylgi.

Miðflokkurinn vinsælli meðal karla

Þegar litið er til aldurs og kyns þeirra sem taka afstöðu í könnuninni má sjá að fylgi Miðflokksins er marktækt hærra hjá körlum en konum, eða 16% á móti 7%. Þá er fylgi Viðreisnar marktækt hærra hjá konum en körlum eða 20% á móti 16%. 

Samfylkingin virðist vera vinsælli hjá þeim sem eldri eru en fylgið er marktækt meira hjá aldurshópnum 25-34. ára og 65 ára eða eldri samanborið við aldurshópinn 18 til 24. ára. 

Viðreisn virðist vera vinsælasti kostur fólks í yngsta aldurshópnum og mælist marktækt meiri hjá einstaklingum á aldrinum 18-34 ára í samanburði við þá sem eru 55 ára og eldri. 

Gætu verið vísbending

Þátttakendur sem tóku afstöðu til þess hvaða flokk þeir hygðust kjósa voru einnig spurðir hvaða flokk þeir myndu kjósa væri þeirra flokkur ekki í framboði.

Af þeim sem tóku afstöðu völdu 21,2% Viðreisn, 17,7% Samfylkinguna, 11,7% Miðflokkinn, 9,7% Pírata, 9% Flokk fólksins, 8,9% Sjálfstæðisflokkinn, 8,7% Sósíalistaflokkinn, 6,5% Framsóknarflokkinn, 3,5% Vinstri græn, 2,9% Lýðræðisflokkinn og 0,3% Ábyrga framtíð. 

„Þessar niðurstöður gætu verið vísbending um að ef kjósendum snýst hugur myndu Píratar, Viðreisn og Sósíalistaflokkurinn helst auka við sig fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn, Samfylking og Flokkur fólksins helst tapa fylgi,“ segir í tilkynningu frá Prósent. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert