„Kveðjustundirnar eru farnar að verða erfiðari“

„Þegar ég kom fyrst þá var smá stress og spenningur í manni. Svo voru miklir jarðskjálftar og það jók á spennuna. Ég viðurkenni það að manni stóð ekki á sama þegar stóru skjálftarnir riðu yfir í Grindavík rétt fyrir fyrsta gos. Þá var ég í Melhólsnámu á ýtunni. Þegar maður var farinn að hendast til, upp og niður, í 70 tonna ýtu þá vissi maður að eitthvað stórt var að fara að gerast,“ segir Kraki Ásmundarson, jarðverktaki og bóndi í frístundum. 

Hann hefur, eins og aðrir jarðverktakar sem mbl.is talaði við, staðið vaktina við byggingu varnargarða nær sleitulaust í rúmt ár. Eru þar margar helgar undir í vinnu og í átta til níu mánuði hafa menn unnið allan sólarhringinn á vöktum. 

„Búkollan á alltaf réttinn“ 

Dagarnir eru langir. Menn mæta til vinnu klukkan átta á morgnana og vinna til sjö á kvöldin. Einungis er eitt matarhlé í hádeginu og þess fyrir utan þurfa menn að koma sér í og úr vinnu og þeir koma mislangt að. 

Ármann Jón Garðarsson, verkstjóri hjá Ístak, og Jón Haukur Steingrímsson, …
Ármann Jón Garðarsson, verkstjóri hjá Ístak, og Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá Eflu, fara yfir málin. mbl.is/Hákon

Þegar blaðamenn mæta á svæðið er öryggisfundur í gangi eftir matarhlé.

„Búkollan hefur alltaf réttinn,“ segir Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá Eflu, sem talar fyrir hópnum. „Búkolla“ ku vera stærðarinnar vörubíll með mannhæðarháum dekkjum. Raunar gætu menn allt eins verið að tala um spliff, donk og gengju, sem eru óskilgreind tól sem Fóstbræður grínuðust með, þegar rætt er um gælunöfn vélanna í eyru blaðamanns.

Mæta með bros á vör 

Létt er yfir hópnum. „Baldvin,“ segja menn einum rómi þegar spurt er hverjir vilji tala við blaðamenn. Hann hlær og grínast á móti. Góðlátleg skot fljúga og hópurinn hlær. Rímar það við orð Ármanns Jóns Garðarssonar verkstjóra sem segir menn mæta með bros á vör til vinnu og að mórall sé góður. „Það er enginn sem kvartar,“ segir Ármann.

„Mórallinn er mjög góður og það hjálpar til að það hefur allt tilgang sem við erum að gera,“ segir Kraki.

Skotin fljúga manna á milli.
Skotin fljúga manna á milli. mbl.is/Hákon

Jósteinn Snorrason hefur unnið við varnargarðana frá því í janúar og fór um með hlöss á búkollu þegar blaðamenn voru í heimsókn. Þar vinnur einnig Almar Freyr sonur hans.

„Það kemur alveg fyrir að maður verði þreyttur, en andinn í hópnum er mjög góður. Annars væri maður ekki hérna,“ segir Jósteinn.

Börnin sakna pabba síns 

Kraki viðurkennir að smá þreyta sé komin í menn.

„Ég bý austur á Héraði og maður þarf að skjótast heim annað slagið,“ segir Kraki. Hann er frístundabóndi og er með „nokkrar kindur“ að eigin sögn. Konan og börnin sjá um að sinna búfénaði þegar hann er ekki til staðar. Sem er æði oft því hann dvelur að lengstum í vinnubúðum í Krýsuvík.

Hann segir börnin hans fjögur, sem eru á aldrinum 5-12 ára, orðin afar langeygð eftir því að fá pabba sinn til baka.

Kraki Ásmundarson hefur verið að störfum frá því í nóvember …
Kraki Ásmundarson hefur verið að störfum frá því í nóvember fyrir rúmu ári. mbl.is/Hákon

„Kveðjustundirnar eru farnar að verða erfiðari. Það verður að segjast. Ég þarf að gera eitthvað skemmtilegt með þeim,“ segir Kraki og bætir við: „Á næsta ári,“ og brosir við.  

Þorði ekki út að pissa 

„Ég er lagður af stað klukkan sex á morgnana og kem heim klukkan hálf níu á kvöldin,“ segir Baldvin Kristjánsson sem situr í „Búkollu“ alla daga. Hann býr á Akranesi og skýrir það hina löngu daga. 

„Ég var kallaður út á fyrsta degi. Var heima að horfa á sjónvarpið þegar mér var sagt að hoppa upp í vörubíl. Jarðskjálftarnir þegar maður kom voru rosalegir; ég þorði ekki út að pissa því maður gat ekki einu sinni stutt sig við bílinn,“ segir Baldvin og hlær við. 

Hann segir að menn hafi verið stressaðir fyrst um sinn. Hins vegar sé staðan önnur nú. „Við erum orðnir eins og smurð vél. Allt er kóðað niður og hver þekkir sitt svæði og allir búnir að læra vel inn á þetta,“ segir Baldvin. 

Baldvin Kristjánsson leggur af stað klukkan sex á morgnana og …
Baldvin Kristjánsson leggur af stað klukkan sex á morgnana og kemur heim klukkan hálfníu á kvöldin. mbl.is/Hákon

Ekki fyrir konuna að sjá 

Varnargarðarnir eru samstarfsverkefni samkeppnisfyrirtækja. Vélarnar á svæðinu hafa verið frá 30-50 á hverjum degi. Koma þær frá stórum sem smáum verktökum.

Stjórnandi eins þeirra fyrirtækja sem útvegar vélar og starfsfólk segir algengt að menn skili inn 300 vinnustundum á mánuði. Sé miðað við átta tíma vinnudag á almennum markaði til samanburðar, fer nærri að fólk vinni 173 klukkustundir á mánuði.

Spurður þá vill Baldvin ekkert tjá sig um það hve mikið hann vinnur. „Konan er ekkert ánægð með þetta. Hún á ekkert að sjá það svart á hvítu,“ segir Baldvin og hlær innilega. „En þetta er einhver slatti,“ bætir hann við.

Sjá má afraksturinn af mannvirkjunum sem varnargarðarnir eru. Allt að tólf metra háir og 14 kílómetra langir. Búið er að hreyfa til um þremur milljónum rúmmetra af efni. Til samanburðar voru hreyfðir til 7,5 milljónir rúmmetrar þegar Kárahnjúkavirkjun var gerð. En virkjunin tók fimm ár í byggingu. 

Ýta hefur verið notuð við verkið og ryður hún frá …
Ýta hefur verið notuð við verkið og ryður hún frá hrauni við lagningu nýs Grindavíkurvegar. mbl.is/Hákon Pálsson

Búinn með Storytel

Baldvin segir að menn hafi almennt ekki upplifað sig í mikilli hættu, en þó hafi það gerst þegar menn voru að bíða eftir því hvar gos kæmi upp.

„Það var kannski einu sinni eða tvisvar sem smá uggur kom í mann. En nú erum við orðnir svo þaulvanir og við treystum kerfinu og hingað til hefur það gengið upp fullkomlega og við höfum rýmt á hárréttum tíma, kannski 40 mínútum fyrir gos,“ segir Baldvin.

Baldvin segist verja dögum sínum í að hlusta á allt á milli himins og jarðar á milli þess sem hann skutlar hlössum á milli staða. „Ég hlusta á hljóðbækur, podköst og í raun bara allt sem hægt er að hlusta á. Ég er kominn svo djúpt inn í Storytel að ég held ég sé að hlusta á hluti sem enginn annar hefur hlustað á,“ segir Baldvin léttur.

Alltaf að hlusta á talstöðina 

Jósteinn og Radoslav Stanoslav Fira hafa aðra sögu að segja. Radoslav eða Radek eins og hann er kallaður hefur verið að gera varnargarða frá því eldgos hófst á síðasta ári. Hann gengur í öll verk. Hann getur stjórnað 50 tonna Hitachi-beltavél, 70 tonna Caterpillar-beltagröfu og keyrt vörubíl ef þurfa þykir.

„Ég hlusta ekki á neitt. Ég hlusta kannski stundum á tónlist en ef það er mikið action í gangi þá hlusta ég á talstöðina. Maður þarf alltaf að vita hvað er í gangi,“ segir Radek.

„Maður þarf alltaf að vera að hlusta á talstöðina því við þurfum að hafa athyglina á hreinu,“ samsinnir Jósteinn.

Jósteinn Snorrason kom til starfa í janúar.
Jósteinn Snorrason kom til starfa í janúar. mbl.is/Hákon

Beint í glóandi hraunið 

Í þann mund sem blaðamenn gera sig reiðubúna í brottför berast fregnir af því að menn ætli að drífa sig í að hefja gerð nýs Grindavíkurvegar.

Jarðýta er byrjuð á verkinu þar sem hún ræðst á 6-7 metra háan hraunvegg.

Radoslav Stanoslav Fira, sem stekkur í öll verk.
Radoslav Stanoslav Fira, sem stekkur í öll verk. mbl.is/Hákon

Eftir stutta stund kemur Radek á heljarinnar gröfu og saman vinna tækin að því að ryðja hrauninu í burtu.

Enn mátti sjá glóð í því þegar vélarnar muldu sig í gegnum hraunið líkt og um leir væri að ræða. Hraunið er bersýnilega enn heitt og inn á milli mátti sjá glóandi hraun bregða fyrir þegar menn mokuðu sig í gegnum það.

Afraksturinn er bersýnilegur og á þrjátíu mínútum virðist verkið vera vel á veg komið. Til stendur að fara í gegnum 600 metra af hrauntungu sem lokað hefur veginum. Verkið á að taka tvær vikur.

Ýta og grafa vinna saman að því að ryðja hrauni …
Ýta og grafa vinna saman að því að ryðja hrauni frá. mbl.is/Hákon Pálsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert