„Okkar plan að halda þessu að óbreyttu til streitu“

Gestur Jónsson er formaður yfirkjörstjórnar í Norðausturkjördæmi. Tekin verður ákvörðun …
Gestur Jónsson er formaður yfirkjörstjórnar í Norðausturkjördæmi. Tekin verður ákvörðun á morgun hvort fresta þurfi kjörfundi vegna veðurs. Samsett mynd

Þrátt fyrir að veðurspár séu ekkert of hagstæðar fyrir kosningar víða um land á morgun er áfram áformað að kjörfundur verði með óbreyttu sniði á morgun. Ef fresta á kosningu í einhverju kjördæmi verður ákvörðun um það ekki tekin fyrr en á morgun, en slíkt myndi valda því að talning frestast þangað til búið er að kjósa um allt land.

Hins vegar gæti komið til þess að fresta þurfi talningu að hluta í einhverjum kjördæmum, en slíkt myndi þá ekki koma niður á talningu t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Þá myndu hins vegar lokaniðurstöður ekki liggja fyrir fyrr en í fyrsta lagi á sunnudaginn.

Fólk almennt vant allskonar veðri og færð

Versta veðurspáin er sem stendur fyrir Norðausturkjördæmi, en einnig gæti veður haft áhrif í austurhluta Suðurkjördæmis og í Norðvesturkjördæmi.

Gestur Jónsson, formaður yfirkjörstjórnar í Norðausturkjördæmi, segir í samtali við mbl.is að þeir sem búi í Norðausturkjördæmi séu almennt vanir allskonar veðri og færð. Segir hann að enn sem komið sé telji hann ekki að fresta þurfi kosningu. Segir hann menn fyrst og fremst hafa áhyggjur af vindi og skafrenningi sem geti tafið að atkvæðum sé komið yfir fjallvegi í talningu. Þar muni staðbundin veður skipta mestu máli.

Leggja ekki líf og limi í hættu

Hann segir Vegagerðina og björgunarsveitir vera í startholunum, en að það tengist aðallega því að tryggja að kjósendur komist á kjörstað. „Við munum ekki leggja líf og limi fólks í hættu til að koma atkvæðum á talningastað,“ bætir hann við og bendir á að þá verði talningu frekar frestað.

Segir hann að búið sé að gera hinar ýmsu ráðstafanir til að tryggja að gögn skili sér í talningu á þeim stöðum sem búast megi við erfiðum aðstæðum. Þannig verði reynt að ljúka kjörfundi sem fyrst á Borgarfirði eystri og að keyrt verði með gögn á snjóplógi inn á Hérað á Egilsstaði. Sama eigi við um Seyðisfjörð þar sem viðbúið sé að gögnum verði keyrt yfir Fjarðarheiðina með snjóplóg.

Viðbúið er að slæmt veður gangi yfir víða á landinu …
Viðbúið er að slæmt veður gangi yfir víða á landinu á morgun, en helst óttast menn hvassviðri og skafrenning á fjallvegum. Kjörstjórnir og yfirkjörstjórnir eru þó viðbúnar, en lögð er áhersla á að ljúka kjörfundi. Gæti talning atkvæða þó tafist á ákveðnum stöðum. Ljósmynd/Landsbjörg

Góður blindflugsbúnaður hjálpar til

Frá Mjóafirði verður atkvæðum siglt yfir á Norðfjörð og frá öllum kjörstjórnum frá Djúpavogi norður að Borgarfirði eystra verður gögnum safnað saman á Egilsstöðum áður en flogið verður með þau á Akureyri. Segir Gestur að blindflugsbúnaður bæði á Akureyri og Egilsstöðum sé það góður að veðrið eigi ekki að hafa þar áhrif.

Atkvæðum frá Vopnafirði verður keyrt meðfram ströndinni á Akureyri, en Gestur segir að einn veikasti hlekkurinn geti verið að koma atkvæðum þaðan, frá Melrakkasléttu og Öxarfirði. „Það gæti orðið nokkuð erfitt,“ segir Gestur.

Engin ákvörðun tekin fyrr en á morgun

Hann segir að enginn ákvörðun verði þó tekin um að fresta kjörfundi ef aðstæður eru mjög slæmar fyrr en í fyrsta lagi á morgun. „Það er okkar plan að halda þessu að óbreyttu til streitu,“ segir Gestur og segir alla áherslu vera að klára kosninguna. Ef veður verður þannig að fresta þurfi kosningu segir hann að henni verði líklega frestað fram á sunnudag, en ef það gerist þarf að fresta talningu á öllu landinu.

„Það er stór ákvörðun að fresta kjörfundi,“ ítrekar Gestur og bætir við að hann hafi mun minni áhyggjur þó að fresta þyrfti að hluta talningu í Norðausturkjördæmi.

Tilbúnir að hinkra í öðrum kjördæmum

Á öðrum stöðum á landinu eru formenn yfirkjörstjórna rólegir og bíða frétta frá Norðausturlandi og jafnvel Suðurlandi. Þannig segir Heimir Örn Herbertsson, formaður yfirkjörstjórnar í Reykjavíkurkjördæmi norður, að ekki verði farið í að læsa talningafólk í Reykjavík inni fyrr en í fyrsta lagi um klukkan 18. Segir hann að ef staðan sé tvísýn þá verði hinkrað þangað til ákvörðun hefur verið tekin um hvort örugglega takist að klára kosninguna.

Svipað er upp á teningnum í Suðvesturkjördæmi, en Gestur Svavarsson, formaður yfirkjörstjórnar þar, segir að áformað sé að talningafólk verði læst inni klukkan 19 ef allt gangi að óskum með kosningu á landinu.

Talning atkvæða í Reykjavíkurkjördæmunum báðum fer fram í Laugardalshöll. Ef …
Talning atkvæða í Reykjavíkurkjördæmunum báðum fer fram í Laugardalshöll. Ef allt gengur að óskum verður talningafólk læst þar inni klukkan 18:00 á morgun, en þó er kjörstjórn tilbúin ef hinkra þarf aðeins með það þangað til ljóst verður að kosning klárist á landinu öllu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Taka þarf ákvörðun fyrir kl. 18

Taka þeir allir fram, Gestarnir báðir og Heimir að nauðsynlegt sé að ákvörðun um hvort fresta eigi kjörfundi liggi fyrir ekki seinna en síðdegis á morgun og í síðasta lagi þegar fer að nálgast 18.

Í raun er því möguleiki á að það verði ekki ljóst fyrr en nálægt 18 á morgun hvort að talning muni hefjast á morgun og þar af leiðandi hvort fyrstu tölur komi annað kvöld og tilefni sé til að halda kosningavökur til að fylgjast með tölum koma í hús um kvöldið og inn í nóttina. Hins vegar virðist ljóst að allt eigi að gera til að hægt verði að ljúka kosningunni, þótt mögulega þurfi að bíða eitthvað með talningu á hluta atkvæða úr einhverjum kjördæmum ef ekki verður hægt að flytja gögnin á talningastað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert