„Sýndarverslun“ færist í aukana

Erfitt getur verið fyrir viðskiptavini að átta sig því hvort …
Erfitt getur verið fyrir viðskiptavini að átta sig því hvort um sýndarverslun er að ræða eða ekki. Ljósmynd/Colourbox

Það færist í vöxt að fólk kaupi vörur af netinu í gegnum það sem kallast á ensku „dropshipping“ eða „sýndarverslun“, hvort sem fólk geri sér grein fyrir því eða ekki. Varasamt getur verið að skipta við slíkar verslanir.

Neytendasamtökin vekja athygli á málinu á vef sínum, en neytendasamtök og stofnanir víðsvegar um Evrópu hafa fengið fjölmargar kvartanir á síðustu árum vegna slíkra verslana.

Kvartanirnar varða meðal annars fölsk tilboð, rangar upplýsingar um vöruframboð, falskar vörur og vörur sem berast seint eða alls ekki. Þá eru töluverðar líkur á að vörurnar innihaldi of mikið af skaðlegum efnum.

Færðist í aukana á tímum covid

Sýndarverslun felur í sér að seljandi vöru heldur úti netverslun og þegar hann fær pöntun er hún send áfram til þriðja aðila sem afgreiðir og sendir vöruna beint til viðskiptavinarins. 

Þannig útvistar netverslunin framleiðslu, heildsölu, lagerhaldi, afgreiðslu og sendingu, gjarnan til aðila utan Evrópska efnahagssvæðisins, að segir á vef Neytendasamtakanna. 

Þó fyrirbærið hafi lengi verið við lýði virðist sem sýndarverslun hafi færst í aukana á tímum kórónuveirufaraldursins. 

Vörur innihalda of mikið af skaðlegum efnum

Erfitt getur verið fyrir neytendur að átta sig hvort um sýndarverslun er að ræða þar sem oft líta heimasíður verslananna út eins og heimasíður hefðbundinna netverslana. Símanúmer, heimilisfang og aðrar upplýsingar gefnar upp og jafnvel látið líta út eins og fjöldi fólks starfi hjá fyrirtækinu, þegar raunin er allt önnur.

Sýndarverslanir selja gjarnan vörur frá löndum þar sem ekki eru gerðar eins ríkar öryggiskröfur og í Evrópu. 

Sænska efnastofnunin (KEMI) gerir reglulega rannsóknir á öryggi vara sem keyptar voru á netinu. Sýndarverslanir voru teknar með í fyrsta skipti árið 2022 og reyndust til að mynda 72% vara innihalda of mikið af skaðlegum efnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert