„Þetta er náttúrulega gjörsamlega galið“

Framkvæmdastjóri hjá Festu segir framleiðslu og úrgang aukast í kringum …
Framkvæmdastjóri hjá Festu segir framleiðslu og úrgang aukast í kringum svartan föstudag. AFP

„Við sem neytendur verðum að vera svolítið gagnrýnin á svartan föstudag,“ segir Elva Rakel Jónsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Festu, miðstöð um sjálfbærni.

Í sjálfu sér sé ekkert óeðlilegt að fyrirtæki efni til útsölu öðru hverju þegar varningur sé eftir á lager en það sé morgunljóst að eitthvað allt annað vaki fyrir þegar svartur föstudagur er annars vegar.

Framleiðsla aukist í kringum svartan föstudag

Framleiðsla á varningi aukist í tengslum við útsöluna sem stríði algerlega gegn tilganginum og öllum sjálfbærnis- og loftslagssjónarmiðum

„Við vitum að magnið sem kemur inn til úrgangsmóttökuaðila eykst alltaf í kjölfarið, þannig við erum í raun öll að kaupa dót sem við erum að fara að henda,“ segir Elva.

„Þetta er náttúrulega gjörsamlega galið.“

Fyrir liggi að samfélagið þurfi að taka miklum breytingum þegar kemur að neyslu- og nýtingarmenningu og að allir einstaklingar sem og hagaðilar þurfi að sýna ábyrgð og framsækni þegar kemur að sjálfbærnimarkmiðum.

Elva Rakel Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Festu- miðstöðvar um sjálfbærni.
Elva Rakel Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Festu- miðstöðvar um sjálfbærni.

Frumkvöðlar valdi góðu raski

Oftar en ekki þyki eldri fyrirtækjum aftur á móti flókið að raska starfsemi sinni hringrásarkerfinu í hag og þar séu frumkvöðlar lykilatriði í samfélaginu til þess að koma af stað hringrásarhagkerfi,“ segir Elva.

„En það er miklu auðveldara fyrir nýsköpunaraðila og frumkvöðla að koma með nýjar hugmyndir sem ganga alveg þvert á það sem núverandi fyrirtæki eru að gera.“

Frumkvöðlastarfsemi hafi einmitt verið megináhersla Nordic Circular-fundarins nýverið þar sem Elva var meðal fyrirlesara og tvö íslensk fyrirtæki, Melta og SideWind, báru af í hugmyndakeppni á fundinum.

Það sé þó alveg ljóst að ekki sé einungis hægt að tækniþróa okkur frá vandanum. Við þurfum að horfast í augu við að við þurfum að breyta neyslu- og framleiðslumynstrum og beita fjárhagslegum hvötum og ívilnunum.

„Við erum í raun öll að kaupa dót sem við …
„Við erum í raun öll að kaupa dót sem við erum að fara að henda.“ Ljósmynd/Friðrik Tryggvason

Skattaafslættir á viðgerðum

„Ef fólk t.d. fengi skattaafslátt þegar það nýtti sér viðgerðaþjónustu það myndi bara breyta mjög miklu,“ segir Elva og bætir við að það sé jú ein birtingarmynd þess neyslumynsturs sem nú er að það sé ódýrara að kaupa nýtt en að gera við.

„Við munum þurfa að komast yfir það að vera með meira fjölnota, fleiri leigur, meira deilihagkerfi og hugsa hlutina alveg upp á nýtt í hönnunarfasanum.“

Mikilvægt sé að hafa þessi gildi hugföst allan ársins hring en sérstaklega núna þegar lokkandi tilboð séu á hverju strái. Það sé oftar en ekki hagkvæmara að endurnýta eða lagfæra en að kaupa nýtt – jafnvel þó að það sé á útsölu.

„Við neytendur þurfum svolítið að kalla okkur sjálf til ábyrgðar og vera vakandi fyrir þessum útpældu auglýsingaherferðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert