Oddviti Lýðræðisflokksins kærður

Eldur S. Kristinsson, oddviti Lýðræðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.
Eldur S. Kristinsson, oddviti Lýðræðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.

Samtökin '78 lögðu fram kæru gegn Eldi S. Kristinssyni, oddvita Lýðræðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, þann 25. júní vegna ummæla sem hann lét falla á opinberum vettvangi um hinsegin fólk.

Eldur greindi frá þessu í skoðanagrein á Vísi í gær. 

Þar greindi hann frá að á fimmtudag var hringt í Eld frá Lögreglunni á Suðurnesjum og hann boðaður í skýrslutöku sem fór fram í gær. 

Að sögn Elds beinist kæran meðal annars að ummælum sem hann lét falla í grein Morgunblaðsins 19. nóvember árið 2022 „um öfgafull viðbrögð á Alþingi frá fyrrverandi varaþingmanni VG og fyrrverandi framkvæmdarstjóra Samtakanna ´78 við umsögn félagssamtaka sem ég er í forsvari fyrir við lagafrumvarp sem lá þar fyrir“.

Þá sagðist hann einnig hafa verið kærður fyrir að velta fyrir sér „hvötum karla sem skilgreina sig sem konur að taka inn lyfið „domperidone“.“

Óverjandi og hættuleg

Bjarndís Helga Tómasdóttir, formaður Samtakanna '78, staðfesti kæruna á Facebook-síðu sinni og sagði Eld ljúga um efni hennar. 

„Við lögðum fram kæru vegna sjö ummæla sem við töldum hættuleg og ýta undir hatur og fordóma. Ummælin voru bara sjö en þau hefði getað verið fleiri – af nægu er að taka,“ sagði í færslu Bjarndísar. 

„Meðal ummæla var að Samtökin ´78 séu að grooma eða tæla börn. Í öðrum ummælum kallar hann trans konur barnaníðinga. Þessi ummæli eru óverjandi og hreint út sagt hættuleg starfsfólki okkar, sjálfboðaliðum og hinsegin fólki öllu. Hatursorðræða elur af sér ofbeldi.“

Uppfært 09:30:

Áður stóð að kæran hafi verið send 11. nóvember, líkt og Eldur staðhæfir í grein sinni. mbl.is hefur fengið kæruna senda frá formanni Samtakanna '78 og er hún dagsett þann 25. júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka