Andrés Magnússon
Miklar sviptingar hafa verið á lokaspretti kosningabaráttunnar ef marka má skoðanakannanir. Þar hefur Samfylkingin fengið mest fylgi og nokkuð stöðugt á bilinu 20-22%, en á hinn bóginn hefur Viðreisn gefið talsvert eftir og Flokkur fólksins veitir Miðflokknum harða samkeppni.
Mestum tíðindum sætir þó sjálfsagt fylgisaukning Sjálfstæðisflokksins undir lok kosningabaráttunnar, en fylgi hans var mjög hóflegt lengi framan af.
Skoðanakannanir hafa raunar verið nokkuð misvísandi í kosningabaráttunni, flökt mikið og vikmörk há, en eftir því sem nær dregur kjördegi hefur orðið meira samræmi með þeim, líkt og sjá má á grafinu, sem sýnir fylgið skv. síðustu könnunum Prósents, Maskínu, Gallup og Félagsvísindastofnunar HÍ.
Þegar litið er til kosningaspár Metils (metill.is) blasa hins vegar við tveir gamalkunnir turnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Í kosningaspánni eru niðurstöður nýjustu kannana teknar saman og lagaðar miðað við fyrri mismun fylgismælinga og kosningaúrslita.
Samkvæmt Metli er Sjálfstæðisflokkurinn ekki aðeins kominn upp að hlið Samfylkingar, heldur sjónarmun fram úr henni. Hann er talinn munu fá 19% en hún 18%. Viðreisn nokkru á eftir með 15%, en Flokkur fólksins með 14%, Miðflokkur með 11% og Framsókn 9%.
Óhætt virðist því að fullyrða að spennan í upphafi kjördags hafi sjaldan verið meiri.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.