„Á ekki von á því að ákæra verði lögð fram“

Frá aðgerðum björgunarsveita á Breiðamerkurjökli í ágúst.
Frá aðgerðum björgunarsveita á Breiðamerkurjökli í ágúst. Ljósmynd/Landsbjörg

Rannsókn á banaslysinu á Breiðamerkurjökli í ágúst er á lokametrunum en bandarískt par lenti undir ísfargi og var karlmaðurinn úrskurðaður látinn á vettvangi.

Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir í samtali við mbl.is að rannsókn málsins sé langt komin.

Fyrsta banaslysið í skipulagðri jöklaferð

Spurður hvort einhver verði ákærður í málinu segir hann:

„Málið er ekki komið inn til ákærusviðs en ég á ekki von á því að ákæra verði lögð fram. Endanleg ákvörðun liggur þó ekki fyrir,“ segir Sveinn.

23 ferðamenn voru í skipulagðri íshellaferð á jöklinum á vegum ferðaþjónustufyrirtækisins Ice Pic Journeys þegar slysið átti sér stað. Atvikið á Breiðamerkurjökli var fyrsta banaslysið í skipulagðri jöklaferð á Íslandi.

Í kjölfar banaslyssins var starfshópur skipaður til að afla upplýsinga um slysið og skoða öryggi í íshellaferðum almennt. Í tillögum starfshópsins að úrbótum kom meðal annars fram að haldin verði skrá um slys og óhöpp í ferðaþjónustu og lagt var til að öryggisáætlun ferðaþjónustu jöklaferða verði hluti af leyfisveitingaferli.

Rannsókn á banaslysi í Tungufljóti á lokastigum

Lögreglan á Suðurlandi er með annað banaslys til rannsóknar þegar björgunarsveitarmaður lést í Tungufljóti nálægt Geysi í byrjun nóvember.

Sveinn Kristján segir að rannsóknin sé á lokastigum. Búið sé að taka skýrslur af öllum vitnum og beðið sé eftir endanlegri krufningarskýrslu.

Maðurinn sem lést hét Sigurður Kristófer McQuillian og var formaður björgunarsveitarinnar Kyndils í Mosfellsbæ. Hann var við æfingu í straumsvatnsbjörgun ásamt tveimur félögum sínum í og við Tungufljót þegar slysið varð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert