Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar gerir kröfu um margvíslegar úrbætur á ungbarnaleikskólanum Lundi svo börnin þar fái tækifæri til að þroskast eðlilega og njóta sín í leikskólastarfinu. Úrbætur skulu fara fram í desember og fram í janúar.
Meðal þess sem gerðar hafa verið athugasemdir við og krafist er úrbóta á, er að börnin hafi verið bundin niður í stóla, þau hafi ekki fengið næg tækifæri til að efla sjálfstæði sitt og hreyfiþroska, vera í frjálsum leik og hafa val um félaga, og ekki fengið nægilega markvissa málörvun. Þá hafi þau hvorki haft leikefni né bókakost við hæfi. Einnig þarf að bæta aðbúnað á leikskólalóðinni.
Þá fer skóla- og frístundasvið fram á að leikskólinn nýti sér betur þá fagþjónustu sem er í boði í gegnum þjónustumiðstöðvar borgarinnar, eins og talmeinafræðinga, sérkennsluráðgjafa og aðra sérfræðinga. Því hefur verið ábótavant á Lundi.
Þetta segir Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, í samtali við mbl.is.
Rök leikskólastjóra og starfsfólks fyrir því af hverju starfshættir og aðbúnaður hafi verið með þeim hætti sem raun bar vitni, voru þau að verið væri að gæta öryggis barnanna.
Fundað var með foreldrum barna á leikskólanum síðdegis í dag og þeim greint frá niðurstöðum þeirrar rannsóknarvinnu sem farið hefur fram og hvaða úrbóta er krafist.
Farið var í fyrstu óboðuðu eftirlitsheimsóknina í leikskólann í byrjun nóvember eftir að ábendingar bárust sem snéru að fjölda starfsfólks, fjölda barna, aðbúnaðar, starfsaðferða, vellíðunar og öryggi.
„Við fórum í eina langa óboðaða heimsókn, sem kom beint í kjölfar bréfanna, og sex aðrar styttri heimsóknir. Við tókum viðtöl við leikskólastjóra og starfsmenn leikskólans. Fórum líka yfir námskrána, starfsáætlanir og ytra mat, til að bera saman gögn, og síðan það sem kemur fram í óboðuðum heimsóknum og viðtölunum,“ segir Helgi.
„Það er þannig að við krefjumst úrbóta sem varða aðbúnað, starfshætti og fagþætti. Við erum í virku samtali við leikskólastjóra vegna þessara mála,“ bætir hann við.
Hvað varðar aðbúnað er meðal annars gerð krafa um er að leikskólinn búi yfir húsbúnaði sem hentar ungum börnum, þannig þau geti sjálf staðið upp úr stólum og sest við borð.
„Stólarnir eru háir og þar sitja börnin og til þess að þau séu ekki að skríða upp úr stólunum þá eru mörg hver bundin í stólunum, en við teldum nær að það væru stólar og borð í hæð barnanna, þannig þau gætu sjálf staðið upp úr stólunum og matast sjálf við borð,“ segir Helgi. En það er eitt af því sem börnin hafa ekki fengið tækifæri til að gera.
„Við sjáum að það megi styrkja frjálsan leik barnanna og að þau hafi val um leikefni og leikfélaga og annað slíkt. Það er svo mikil áhersla í leikskólastarfinu að efla sjálfstæði barnanna.“
Leikefni þurfi að vera þannig að það efli þroska ungra barna og aðbúnaður á skólalóð með þeim hætti að það styrki leik barnanna. Einnig þurfi að bæta bókakost skólans og gefa börnunum tækifæri til að skoða og fletta bókum.
Hvað fagþætti varðar er krafist úrbóta þannig að börnin fái að efla hreyfiþroska sinn með eðlilegum hætti, fái marvissa málörvun og að meiri áhersla sé lögð á læsi og útinám.
„Svo förum við líka fram á að leikskólinn nýti sér betur þá fagþjónustu sem er í boði á vegum Reykjavíkurborgar, í gegnum miðstöðina.
Það eru sérkennsluráðgjafar, talmeinafræðingar og aðrir sérfræðingar sem eru að vinna í miðstöðvunum sem eru að veita leikskólunum, hvort sem það eru borgarreknir eða sjálfstætt starfandi, þjónustu. Það er eindregin hvatning okkar að leikskólinn nýti sér betur þá þjónustu til þess að styrkja starfshætti skólans og þjónustu við börnin.“
Það hefur semsagt verið skortur á því?
„Já, við sjáum einhver tilvik þess að það hefði getað styrkt starfshættina að fá ráðgjöf frá okkur,“ segir Helgi.
„Þetta eftirsóttur leikskóli, við sjáum mikla umhyggju og það er gott samstarf á milli starfsfólks. Þannig það eru mikil tækifæri til umbóta, sem er auðvitað jákvætt fyrir börnin, foreldrana og starfsfólkið.“
Það sem þú telur upp, er þetta allt eitthvað sem hefur verið ábótavant?
„Að okkar mati, en ég undirstrika að leikskólanum er mjög umhugað um öryggi barna, en við teljum að sú áhersla geti jafnvel verið að draga úr því að styrkja sjálfshjálp barnanna og að leikefni aðbúnaður í skólanum sé þannig að það hæfi sjálfstæðri hreyfiþörf barnanna og annað slíkt,“ segir Helgi.
„Leikskólanum er mjög umhugað um að börn séu ekki að slasast innan- eða utandyra og séu að borða mat sem rennur ljúflega ofan í þau. Á meðan í öðrum leikskólum, allavega borgarreknum, þá er áhersla á að börnin séu að fá sér sjálf, jafnvel skammta sér sjálf og matast sjálf.“
Það er væntanlega farin af stað einhver vinna við úrbætur?
„Já, við setjum niður ákveðnar línur og förum fram á úrbætur núna í desember. Við erum í samstarfi við leikskólastjórann um það,“ segir Helgi.
Áfram verði fylgst með starfseminni og því fylgt eftir að úrbætur verði gerðar. Hvernig það verður gert á hins vegar eftir að útfæra.
„Við eigum að ákveða það og ákveðum það með leikskólastjóra að hvaða marki það verður í desember og að hvaða marki í janúar. Við erum í þessu samtali ennþá og eðlilega viljum við að öllum líði vel og vaxi og dafni í leikskólastarfinu. Því viljum við ramma þetta af sem best svo börnin fái að blómstra.“
Ekki hafa verið sett ákveðin tímamörk á það hvenær úrbótum á að vera lokið, en Helgi segir að þar spili jólahátíðin inn í með fjölda frídaga.
„Við eigum eftir að stilla það af með leikskólastjóra. Umbæturnar eru aðalatriðið en ekki dagsetningin. Við eigum eftir að ræða hvað verður hægt að gera fyrir jól og hvað í byrjun janúar.“
Aðspurður hvort leikskólastjóri og starfsfólk hafi tekið vel í kröfu um úrbætur og að hann telji að leiðbeiningum verði fylgt, segist Helgi hafa ríkar væntingar til þess.
En ef þið sjáið ekki þær úrbætur sem gerðar eru kröfur um?
„Við erum ekki komin á þann stað ennþá hvað það felur í sér.“
Leikskólinn Lundur er Ungbarnaleikskóli sem samkvæmt starfsleyfi hefur heimild til að hafa um 40 til 50 börn í vistun hverju sinni, en eins og staðan er í dag eru þau ekki nema tæplega 30.
Helgi segir það orsakast af mönnunarvanda, sem sé einnig til staðar einkareknum leikskólum.
Börnin á leikskólanum eru á aldursbilinu frá rétt rúmlega eins árs og upp í að vera á þriðja ári. Þannig töluverður þroska- og getumunur er á elstu og yngstu börnum. Samkvæmt heimildum mbl.is hefur ekki verið tekið nægilegt tillit til þessa aldursmunar og hvorki starfshættir né aðbúnaður aðlagaður nægilega vel að mismunandi þroskastigi barnanna.