390 milljarða óskalisti Ingu

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórnarmyndunarviðræður standa nú yfir milli Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins, en þó ekkert hafi spurst út um hvað þar er helst til umræðu, blasir við að flokkarnir lýstu í kosningabaráttunni mjög mismunandi áherslum til ríkisfjármála, sem erfitt eða ómögulegt getur reynst að láta ríma saman.

Samfylkingin boðaði stóraukna skattheimtu til þess að standa undir auknum ríkisútgjöldum af ýmsu tagi, en Viðreisn margítrekaði að engir skattar yrðu hækkaðir fengi hún nokkru um ráðið.

Flokkur fólksins undir stjórn Ingu Sæland boðaði hins vegar verulegar kerfisbreytingar í skattheimtu, sem bæði fela í sér aukna skattheimtu og óbeinar afleiðingar, sem miklu geta skipt, bæði fyrir efnahagslífið í heild og einstaklinga.

Hafa má áhyggjur af afleiðingum þess að auka peningamagn í umferð fyrir verðbólgu og vexti á þessum viðkvæmu tímum í efnahagslífi þjóðarinnar, en hér verður frekar litið til beinni áhrifa. Bæði nú þegar og til framtíðar litið.

Skattleysi kostar hærri skatt

Samkvæmt skattareiknivél SA, sem finna má á vef samtakanna (sa.is), kostar það að óbreyttu 224 milljarða króna að færa skattleysismörk upp í 450.000. Hugmynd Flokks fólksins er að persónuafsláttur fari fallandi, sem felur í sér enn hærri jaðarskatta fyrir tekjur yfir 450.000 kr. á mánuði og að skattbyrði færist á alla tekjuhærri.

Eins og sakir standa er skatthlutfall 1. þreps tekjuskattkerfisins 31,48%, 2. þreps er 37,98% og 3. þreps 46,28%. Til að tekjuskattkerfið skili jafnmiklu til ríkis og sveitarfélaga við þessa fyrirhuguðu hækkun skattleysismarka þyrfti sem dæmi að hækka 2. þrepið í 64,5% og 3. þrepið í 70% eða hækka skattbyrði sem því nemur með öðrum hætti.

Þetta eru engar smáupphæðir og viðbúið að slík skatthækkun setti heimilisbókhald og framtíðaráætlanir fjölmargra, jafnvel flestra launþega, í uppnám.

Eru þá ótalin augljós ruðningsáhrif á vinnumarkaði, mögulegur skattflótti hálaunafólks og þar fram eftir götum.

Hækkun grunnframfærslu og lífeyris er ekki eins augljóst hvernig skuli meta. Ef hækka á framfærslu öryrkja og ellilífeyrisþega má ætla að hið sama ætti að eiga við alla sem hafa lægri mánaðartekjur en 450.000 kr.

Sé miðað við skattagögn frá 2023 og gert ráð fyrir að tekjur hækki um 5% í ár gæti hækkun allra bóta kostað ríflega 40 milljarða króna á ári.

Þá er þó sýnd sú varfærni að 25 ára og yngri eru ekki teknir með í reikninginn, þar sem námsmenn hafa jafnan litlar tekjur en fá framfærslu með námslánum. Ef 16-24 ára væru hins vegar teknir með í dæmið færi fjárhæðin upp í 80 milljarða króna.

Sé allt þetta samandregið má gróflega áætla að það myndi kosta ríkissjóð um 300 milljarða króna að veita öllum 450.000 kr. skattafrjálsa framfærslu.

Það er um fimmtungsaukning ríkisútgjalda á ári, en til samanburðar má nefna að heildarfjárheimildir til málaflokka félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins eru 331 milljarður króna á fjárlögum næsta árs.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert