Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingar segir að stjórnarmyndunarviðræður við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur formann Viðreisnar og Ingu Sæland, formann Flokks fólksins, í gær hafi gengið vel.
Hinar breiðari strokur mögulegs stjórnarsamstarfs hafi verið ræddar, en stakar aðgerðir og ráðherraskipan síður.
Ekki kemur á óvart að efnahagsmálin hafi fengið mest rými í viðræðum formannanna, en Kristrún segir miklu skipta að stöðugleiki verði tryggður og að verðbólga og vextir haldi áfram að lækka. Það kann þó að reynast snúið í ljósi mjög ólíkra stefnumála flokkanna þriggja í kosningabaráttunni.
Samfylkingin kynnti þar umfangsmiklar skattahækkanir til þess að standa straum af stórauknum ríkisútgjöldum samkvæmt „plani“ flokksins langt fram yfir þetta kjörtímabil. Viðreisn hét því hins vegar að flokkurinn féllist ekki á neinar skattahækkanir.
Flokkur fólksins boðaði aftur umfangsmiklar kerfisbreytingar í skattheimtu, þar á meðal um hækkun lágmarksframfærslu almannatrygginga í 450.000 kr. á mánuði, skatta- og skerðingalaust, auk skattlagningar á iðgjöld lífeyrissjóða.
Líkt og rakið er í fréttaskýringu í blaðinu í dag er þar um að ræða mjög kostnaðarsamar aðgerðir sem munu valda gríðarlegum skattahækkunum á hina tekjuhærri ef af yrði, verulegum skerðingum lífeyrisréttinda og verðmætaflutningi milli kynslóða, sem viðbúið er að auki verðbólgu, líkt og Þorgerður Katrín hefur varað við.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag