Þrítugur karlmaður var í dag dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps í Fossvogsdal í júní.
Réðst maðurinn að lækni sem var á kvöldgöngu með eiginkonu sinni og vinahjónum og stakk hann allavega þrisvar, meðal annars í háls.
Maðurinn, Daníel Örn Unnarsson, var á leið til vinar síns eftir að hafa horft á fótboltaleik, þegar hjónin urðu á vegi hans, en til ágreinings kom á milli þeirra eftir að Daníel rakst utan í vin læknisins þegar hann reyndi að fara fram hjá þeim á rafmagnshlaupahjóli.
Eftir orðaskak og móðganir Daníels í garð þeirra kýldi læknirinn Daníel nokkur skipti í andlitið. Tók Daníel við þetta upp fjaðurhníf með 9,5 cm blaði og stakk lækninn.
Fram kemur að læknirinn hafi verið stunginn í háls, í hægri síðu og neðantil við rifjaboga. Í ákæru saksóknara var vísað til fjögurra stungusára sem Daníel veitti lækninum og telur dómurinn sannað að hann hafi veitt þrjú þeirra, en ekki það fjórða sem lýst er sem grunnum skurði við nára.
Telur dómurinn að þó að læknirinn hafi veitt Daníel hnefahögg sé hnífstungan langt út fyrir mörk um neyðarvörn og ekkert réttlæti beitingu hnífs í þessum aðstæðum.
Þrátt fyrir að vera fundinn sekur um tilraun til manndráps, sem varðar að lágmarki fimm ára fangelsi, var Daníel dæmdur í fjögurra ára fangelsi. Ástæða þess er heimilt er að dæma lægri refsingu „þegar af tilraun má ráða að brotamaður sé ekki eins hættulegur og vilji hans ekki eins harðnaður og ætla má að sé um menn sem fullfremja slík brot,“ eins og segir í dóminum.
Telur dómurinn að horfa megi til þessarar heimildar í þessu tilfelli. „Þegar virtur er allur aðdragandi að verknaði ákærða, hliðsjón höfð af þeirri tilviljunarkenndu og hröðu atburðarás sem leiddi til hnífaatlögunnar, sem og því að samkvæmt dómsframburði ákærða og brotaþola bendir ekkert til þess að atlagan hafi verið heiftúðleg, þykir eins og hér stendur sérstaklega á mega líta til 2. mgr. 20. gr. við ákvörðun refsingar.“
Í dóminum er vísað til ítarlegrar geðrannsóknar á Daníel og er niðurstaða hennar að hann hafi verið fullfær um að stjórna hegðun sinni og sé þannig sakhæfur í málinu.
Auk þess að vera gerð refsing þarf Daníel að greiða lækninum tvær milljónir í miskabætur, 413 þúsund í þjáningabætur og 200 þúsund í sjúkrakostnað. Þá er Daníel gert að greiða 6,5 milljónir í sakarkostnað.
Eftir stunguárásina elti vinur læknisins Daníel á rafmagnshlaupahjólinu sem Daníel átti og náði honum í fjörunni við Fossvog og tók hann þar hálstaki og hélt honum. Kemur fram í umfjöllun Vísis um málið á sínum tíma að vinurinn sé enn með stöðu sakbornings vegna þeirra átaka, en rannsókn þess máls er enn í gangi.