Margir áhyggjufullir því rútínan fer í vaskinn

Anna Kristín Sigurðardóttir, forstöðukona Vesturbæjarlaugarinnar, fagnar því að framkvæmdir séu …
Anna Kristín Sigurðardóttir, forstöðukona Vesturbæjarlaugarinnar, fagnar því að framkvæmdir séu að hefjast. mbl.is/Árni Sæberg

Ákveðin tímamót eru nú að eiga sér stað í Vesturbæjarlauginni því í dag var hafist handa við að rífa sánuklefana sem hafa gegnt mikilvægu hlutverki í lífi margra sundgesta frá því þeir voru settir upp í núverandi mynd, seint á áttunda áratug síðustu aldar.

Í staðinn á að setja upp infrarauða sánu ásamt hefðbundinni sánu, en hönnunarferlinu er ekki lokið og því enn óvíst hvernig aðstaðan verður.

Mikið áfall þegar karlasánunni var lokað

Anna Kristín Sigurðardóttir, forstöðukonu Vesturbæjarlaugarinnar, segir viðbrögð gesta við yfirvofandi breytingum hafa verið misjöfn. Þá hafi óvissan um hvað komi í staðinn valdið mörgum fastagestum óþægindum.

„Það var mikið áfall þegar karlasánunni var lokað, það gerðist mjög skyndilega í lok ágúst. Við ástandsskoðun kom í ljós að það væri allt of dýrt að fara að koma henni í gagnið almennilega þegar þetta var framundan,“ segir Anna Kristín og vísar til framkvæmdanna sem nú eru að hefjast.

„Breytingar eru óþægilegar, sérstaklega hérna því fólk veit ekki hvað nákvæmlega er að fara að koma. Það er óþægilegt. Þú veist bara hvað þú ert að missa, en veist ekki hvað þú ert að fá. Ég myndi segja að það væri það sem væri erfiðast að vita ekki hvað kemur í staðinn. Það kemur infrarauð, það kemur sána, það verða ekki búningsklefar, en hvernig þetta verður nákvæmlega er ekki komin lokamynd á,“ útskýrir hún.

Þar til ágúst síðastliðnum voru sánaklefarnir kynjaskiptir með baðstofum og skápum. Anna Kristín segir það hafa verið erfitt fyrir þá sem notuðu rýmin mikið, að missa þau. Aðrir hafi hins tekið því fagnandi þegar öll kyn sameinuðust í kvennasánunni í haust.

„Einhverjir hafa verið mjög glaðir, eins og sumir karlarnir að komast loks í almennilega sánu, því hún var búin að vera léleg svo lengi, og sumir eru glaðir að geta komast með maka af gagnstæðu kyni. Þannig það eru mjög skiptar skoðanir á þessu.“

Sánuklefarnir eru komnir til ára sinna og karlaklefanum var lokað …
Sánuklefarnir eru komnir til ára sinna og karlaklefanum var lokað í ágúst vegna lélegs ástands. mbl.is/Árni Sæberg

Töluvert rask í nokkra daga

Vesturbæjarlaugin var byggð árið 1961 og endurbætur á þeim elsta hluta laugarinnar sem hýsir sánuna, hafa staðið til í einhvern tíma. Upprunalega voru baðstofurnar í sánunni einu búningsklefar laugarinnar, en þegar þeim var breytt í sánu á áttunda áratugnum voru búningsklefar færðir yfir í hinn enda byggingarinnar og útiklefar settir upp.

Búast má við því að niðurrif sánunnar taki einhverja daga og að mögulega verði eitthvað rask á starfsemi laugarinnar á meðan. 

„Nú hefst niðurrif, sem er fyrsti liður í endurbótum á þessum elsta hluta mannvirkisins, sem hefur verið á döfinni, en kannski ekki alveg skýrt hvenær myndi hefjast. Þetta gerðist svolítið skyndilega, þó við höfum vitað að þetta væri í aðsigi,“ segir Anna Kristín.

„Það mun mögulega verða eitthvað rask á þeim dögum sem þeir eru að brjóta veggi og annað, þegar það verða mikil læti,“ bætir hún við. 

Það liggi þó fyrir með einhverjum fyrirvara svo það verði hægt að vara fólk við, þannig það komi ekki fýlferð í laugina. 

Sánan eins og villta vestrið

Sjálf er Anna Kristín mjög spennt fyrir breytingunum, enda hafi verið kominn tími á endurbætur.

„Við tökum því fagnandi að það eigi að fara í framkvæmdir og fá smá andlitslyftingu. Ég held að þetta verði alveg frábært. Ég held að Vesturbæjarlaugin verði spa laug borgarinnar þegar þetta er komið.“

Hún segir töluverða umræðu hafa skapast í borginni um sánu á sundstöðum. Það sé til dæmis mjög mismunandi eftir sundlaugum hvaða reglur gilda um sánuna. Í sumum laugum, þar sem er kynjaskipt sána, er til að mynda gerð krafa um sundföt en öðrum ekki.

Á landsfundi forstöðumanna sundstaða í haust var rætt um breytingar á sundlaugarmenningu sem hafa orðið í gegnum tíðina, meðal annars með tilkomu sánu, eimbaða, heitra og kaldra potta og nú nýlega infrarauðrar sánu.

„Það er ákveðin þróun í því hvernig fólk notar hlutina. Það eru greinilega mjög skiptar skoðanir á því hvernig á að umgangast og nota sánu á Íslandi. Í reglugerð er rosa lítill rammi um sánur, bara eins og hvað hitastigið á að vera. Þetta er svolítið villta vestrið.“

Nú stendur yfir þjónustukönnun í öllum sundlaugum borgarinnar þar sem fólk getur svarað því hvernig það notar sánuna eða myndi vilja nota hana.

„Hér er hönnunarferlinu ekki lokið. Því hefur verið startað en endanleg hönnun liggur ekki fyrir, þannig það er ennþá möguleiki á að hafa áhrif.“

Hvetur fólk til að prófa aðrar laugar

Einhver bið verður því á að sundgestir í Vesturbæjarlaug geti notið þess að fara í sánu aftur. Anna Kristín segist hafa heyrt talað um að að áætluð verklok framkvæmdanna væru í lok árs 2025, en í ljósi þess að hönnun er ekki enn lokið þá muni það væntanlega frestast eitthvað.

„Fólk verður bara að sætta sig við eimbaðið þangað til. En það mun koma infrarauð sána og það mun verða önnur gufa. Ég veit ekki nákvæmlega hvernig það verður, hvort það verða tvær eða ein stór.“

Aðspurð hvort hún skynji að fastagestir séu áhyggjufullir yfir því að missa sánuna í svona langan tíma, segist hún finna fyrir því.

„Já ég held það séu margir áhyggjufullir því rútínan þeirra fer í vaskinn. Örugglega erfiðasti tími ársins fyrir marga. Þetta er þægilegasti tími ársins fyrir okkur fyrir framkvæmdir því það eru ekki margir í sundi, en þetta líka árstíminn þar sem er rosa mikið myrkur og kalt og fólk þarf akkúrat sánuna sína. En ég vil bara hvetja fólk til að prófa aðrar laugar.“

Hún bendir á að framkvæmdir séu alltaf erfiðar en að yfirleitt verði útkoman betri á endanum. Í þessu tilfelli hafi verið nauðsynlegt að taka rýmið í gegn.

„Það er mörgum sem finnst þetta frábært og eru ofboðslega spenntir yfir því að það sé verið að gera eitthvað, enda er ástandið á þessum klefum búið að mjög slæmt í mörg ár. Gólfin þarna eru ógeðsleg og það míglekur allt. Það greindist mygla þarna og allskonar sem er ekki gott fyrir neinn. Þegar hús eru orðin þetta gömul þá þarf að endurnýja, sérstaklega sundlaugar, þetta er svo mikið blautrými og alltaf bleyta alls staðar.

Blaðamaður náði tali af tveimur sundgestum, sem hvorugir eru fastagestir í sánu, en telja úrbætur af hinu góða.

Jónas Kristinsson fastagestur fagnar breytingunum.
Jónas Kristinsson fastagestur fagnar breytingunum. mbl.is/Árni Sæberg

Fagnar góðum breytingum

Jónas Kristinsson er fastagestur í Vesturbæjarlauginni og hefur komið daglega í mörg ár.

Hann notar sánuna reglulega en finnst bara fínt að það eigi að rífa hana. Eimbaðið komi að góðum notum á meðan.

Hann myndi vilja að nýju sánuklefarnir yrðu settir upp þannig að hægt væri að horfa úr þeim yfir á laugarsvæðið.

Spurður hvort hann hafi heyrt frá öðrum fastagestum hvernig framkvæmdirnar leggist í þá, segir hann töluverðar umræður hafa skapast fyrst þegar greint var frá áætlununum.

„Breytingar virðast stundum fara illa í fólk, þar til þær eru komnar, þá líður öllum vel með þær. Mesta hræðslan við breytingarnar eru breytingarnar sjálfar en eftir á verður þetta fínt. Vesturbæjarlaug má alveg taka breytingum eins og annað.“

Hann bendir á að allir elski nýju pottana sem bætt var við fyrir nokkrum árum. Útiklefarnir hafi verið færðir á sama tíma, en þeir virki enn.

„Þannig ég fagna góðum breytingum.“

Margrét Þorvaldsdóttir gæti alveg hugsað sér að prófa infrarauða sánu.
Margrét Þorvaldsdóttir gæti alveg hugsað sér að prófa infrarauða sánu. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Laðar ekki endilega fleiri að

Margrét Þorvaldsdóttir er fastagestur í lauginni þó hún komi ekki daglega. Hún reynir að koma eins oft og hún getur og taka sundsprett.

Sjálf nýtir hún sér frekar eimbaðið en sánuna, en á alveg eins von á því að hún nýti sér infrarauða sánu þegar hún verði komin upp.

„Ég held að þetta muni hafa ágætis áhrif,“ segir Margrét.

Hún telur þó ekkert endilega að bætt aðstaða muni laða fleiri að lauginni.

„Nei, það er alltaf sama fólkið sem er hérna, fyrir utan ferðamennina auðvitað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka