„Undanfarin ár hefur verið óskað eftir því að endurgjöf sem fylgir svarbréfum sé ítarlegri og nánari af því að fólk sem hefur fengið höfnun veit kannski ekki hvort það sé vegna þess að umsóknin var góð eða slæm,“ segir Jónatan Garðarsson, formaður stjórnar listamannalauna, í samtali við mbl.is.
Mikill úlfaþytur hefur verið um úthlutun listamannalauna sem kynnt var í vikunni fyrir árið 2025 en þá verða 1.720 mánaðarlaun til skiptanna úr átta launasjóðum sem skipt er niður eftir listvettvöngum, það er að segja myndlist, tónlist, störf rithöfunda og svo framvegis.
Í kjölfar nýlegrar breytingar á lögum um listamannalaun bættust tveir sjóðir við, annar fyrir kvikmyndahöfunda en hinn sjóðurinn Vegsemd sem er ætlaður listamönnum 67 ára og eldri.
Úthlutun 2025 fékk 251 listamaður af 1.339 umsækjendum sem skiptust í 1.223 einstaklinga og 116 sviðslistahópa. Náðu umsóknir til samtals 11.988 mánaða, þar af 1.611 frá sviðslistahópum.
„Í mörgum tilfellum eru þetta mjög fínar umsóknir en peningarnir eru bara takmarkaðir,“ heldur Jónatan áfram, „nú var ákveðið eftir langt og mikið samtal, sem er búið að ganga í nokkur ár, að svara með aðeins ítarlegri hætti og það gerði hver nefnd á sinn hátt. Margir eru ánægðir og aðrir eru það ekki, þetta er bara tilraun sem þótti nauðsynlegt að gera, svo verður bara að vega og meta hvort þetta er rétt aðferð eða ekki,“ segir formaðurinn.
Í tilkynningu frá stjórn listamannalauna segir af þessari sömu tilraun til að láta ákvörðunartexta umsóknar fylgja svarbréfum. „Því miður gekk þessi tilraun ekki eins og til stóð og í tilvikum voru ákvörðunartextar til þess að særa umsækjendur. Stjórn listamannalauna þykir þetta miður og biður þá listamenn sem um ræðir innilega afsökunar. Það hvort ákvörðunartextar fylgi svarbréfum verður tekið til ítarlegrar skoðunar fyrir næstu úthlutun,“ segir þar.
Þannig að reikna má með að öðruvísi verði staðið að næstu úthlutun?
„Já, það munum við væntanlega ræða við fulltrúa fagfélaganna eins og við höfum gert, við höfum fundað með þeim tvisvar á ári þessi hópur sem er í stjórninni núna,“ svarar Jónatan og bætir því við að málið verði rætt opinskátt við fulltrúa félaganna sem óskað hafi eftir þessu fyrirkomulagi á sínum tíma.
„Þá munum við ræða hvort þetta sé farsælt eða ekki og niðurstaða þess liggur þá líklega fyrir næsta haust, en við vildum alla vega reyna að nálgast þessar óskir með einhverjum hætti. Hvort það var rétt eða röng ákvörðun verður bara að koma í ljós. Okkur leist þannig á að þetta gæti hjálpað einhverjum, en ef þetta veldur bara óánægju þá verðum við bara að bakka,“ segir Jónatan Garðarsson, formaður stjórnar listamannalauna, að lokum.