Allt frá árinu 1937 hefur setið á Alþingi Íslendinga stjórnmálaflokkur sem hefur skilgreint sig lengst til vinstri á hinum pólitíska ási, þannig að viðbrigðin eru mikil nú þegar Vinstirheyfingin – grænt framboð (VG) hverfur á braut.
Kommúnistaflokkur Íslands var stofnaður síðla árs 1930 en hafði ekki erindi sem erfiði fyrstu þrjú skiptin sem hann bauð fram til Alþingis. Fékk þó 7,5% atkvæða 1933 og 6% ári síðar en þau féllu dauð niður. Í kosningunum 1937 kom flokkurinn hins vegar í fyrsta og eina skipti mönnum á þing, þremur talsins, en á bak við þá voru 8,5% atkvæða.
Árið 1938 var Sameiningarflokkur alþýðu – Sósíalistaflokkurinn stofnaður en hann var alla jafna kallaður Sósíalistaflokkurinn. Að stofnuninni stóðu Kommúnistaflokkurinn og hluti Alþýðuflokksins á grundvelli hugmyndarinnar um breiðfylkingu alþýðu gegn fasisma sem þá reið húsum víða í Evrópu.
Sósíalistaflokkurinn bauð fimm sinnum fram til Alþingis og naut býsna stöðugs fylgis, á bilinu 16-20%. Mest fékk flokkurinn 19,5% bæði 1946 og 1949 og tíu og níu menn kjörna. Minnst var fylgið í seinustu kosningunum, 1953, 16,1% og þá settust sjö menn á þing fyrir flokkinn.
Einnig má segja að Alþýðubandalagið hafi búið að stöðugu fylgi, á bilinu 14-23%. Mestur völlur var á flokknum í kosningunum 1978, þegar hann hlaut 22,9% atkvæða og 14 menn kjörna. Minnst fékk Alþýðubandalagið sjö menn kjörna í fyrri kosningunum 1959 en Íslendingar gengu í tvígang að kjörborðinu það ár, í júní og september. Annars var flokkurinn yfirleitt með á bilinu átta til 11 þingmenn. Þeir voru níu síðasta kjörtímabilið sem Alþýðubandalagið var á þingi, 1995-99.
Undir blálok síðustu aldar stóð sem frægt er til að sameina vinstrimenn á Íslandi undir merkjum nýs stjórnmálaafls, Samfylkingarinnar. Inn í hana gengu Alþýðuflokkurinn, Kvennalistinn og Þjóðvaki og til stóð að Alþýðubandalagið gerði það líka. Á endanum sleit hluti þess flokks sig þó frá þeim áformum og stofnaði Vinstrihreyfinguna – grænt framboð.
VG hlaut 9,1% atkvæða í sínum fyrstu kosningum 1999, meðan Samfylkingin leysti til sín 26,8%. Sex menn tóku sæti á Alþingi í nafni flokksins sem var þremur færri en Alþýðubandalagið hafði haft kjörtímabilið á undan. Fylgi VG fram á þennan dag hefur verið mun meira flöktandi en bæði Sósíalistar og Alþýðubandalagið áttu að venjast.
Nánar er fjallað um kosningasögu flokkanna yst á vinstri vængnum í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.