Fólk varað við að vera á ferð

Varað er við akstursskilyrðum á morgun og hvetja Vegagerð og …
Varað er við akstursskilyrðum á morgun og hvetja Vegagerð og Veðurstofa fólk til að hnika ferðaáætlunum sínum sé þess nokkur kostur. mbl.is/Gunnlaugur

„Miðað við veðurspána líst okkur illa á veðrið og það er búist við mjög slæmri færð, það verður vindur og asahláka og þá að öllum líkindum mikil hálka á vegum. Ef fólk gæti breytt plönum og ekki verið á ferð á morgun væri það best.“

Þetta segir Sveinfríður Högnadóttir, fulltrúi í umferðardeild Vegagerðarinnar, í samtali við mbl.is um veðurspá morgundagsins en Veðurstofa Íslands hefur gefið út appelsínugular viðvaranir vegna vinds og asahláku á morgun á Vesturlandi, Norðurlandi vestra og Vestfjörðum.

Hvatt til breyttra ferðaáætlana

Lætur Veðurstofan þess enn fremur getið að búast megi við hættulegum akstursskilyrðum vegna mikillar hálku og vinds.

Gular viðvaranir hafa einnig verið gefnar út fyrir aðra landshluta og þar má einnig búast við erfiðum akstursskilyrðum. Segir Veðurstofan að ef vegfarendur ætli að vera á ferð á þessum tíma sé nauðsynlegt að kannar aðstæður áður en lagt er af stað og breyta ferðaáætlunum miðað við aðstæður sé þess nokkur kostur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert