Hætta á krapaflóðum og skriðum

Krapaflóð sem féll í Fagradal í janúar í fyrra.
Krapaflóð sem féll í Fagradal í janúar í fyrra. mbl.is/Jónas Erlendsson

Varað er við krapaflóðahættu á vestan- og sunnanverðu landinu og getur skriðuhætta skapast þegar líður á hlýindin.

Þetta segir í tilkynningu frá ofanflóðavakt Veðurstofunnar.

Segir þar enn fremur að aðfaranótt sunnudags gangi í sunnanátt og muni hlýna, fyrst á vestanverðu landinu.

Skil muni svo ganga upp að landinu seinnipart sunnudags með mikilli rigningu og hlýni þá enn frekar.

Hiti gæti nálgast 15 gráður

„Aðfaranótt mánudagsins 9. desember verður mikil leysing á öllu landinu. Mest verður úrkoman á sunnanverðum Vestfjörðum, norðanverðu Snæfellsnesi, á Hellisheiði, auk svæða í grennd við jökla á Suðurlandi. Hiti gæti náð allt að 10°C á láglendi vestanlands, sem þýðir að rigning mun ná upp í fjallstoppa, og því má búast við asahláku á þessu svæði. Jarðvegur er víða frosinn eftir kuldatíð og því má búast við miklu afrennsli á yfirborði,“ segir í tilkynningunni.

Kemur þá fram að á norðan- og austanverðu landinu sé ekki gert ráð fyrir mikilli úrkomu en hiti þar gæti nálgast 15 gráður vegna áhrifa hnjúkaþeys.

Þá má gera ráð fyrir að snjó taki hratt upp á þessum svæðum og mikilli leysingu.

Fólk hvatt til þess að fylgjast með aðstæðum

Vegna hlákunnar má svo búast við vatnavöxtum víða um land, mest á vestan- og sunnanverðu landinu þar sem úrkomunnar gætir.

Verður þá hætta á krapaflóðum og skriðum á vestan- og sunnanverðu landinu en einnig gæti orðið hætta á krapaflóðum á norðan- og austanverðu landinu þó að það sé talið ólíklegra vegna lítillar úrkomu.

Þá geta vot snjóflóð fallið þegar hlýnar og fyrst í hlýindunum.

Ekki er hægt að útiloka að samgöngutruflanir geti orðið vegna veðursins og hvetur því ofanflóðavakt Veðurstofunnar fólk til þess að fylgjast með aðstæðum á umferdin.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert