Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í mörg horn að líta í gærkvöld og í nótt og kona var til að mynda handtekin fyrir að kasta litlum hundi sem hún var með í fanginu í bringu lögreglumanns.
Lögreglunni fékk tilkynningu um ágreining milli mæðra. Þegar lögreglan kom á svæðið og reyndi að stilla til friðar sem virtist vera að takast kastaði kona hundinum í lögreglumanninn. Konan var talsvert ölvuð og var vistuð í fangaklefa vegna nokkurra brota. Hundinum varð ekki meint af eftir kastið.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglunnar vegna verkefna hennar frá klukkan 17 í gærkvöld til klukkan 5 í morgun. Alls er 81 mál bókað í kerfum lögreglunar á tímabilinu og átta gista fangageymslur.
Aðila vísað út af neyðarskýli Reykjavíkurborgar sökum æsings. Tveimur klukkustundum seinna var sami aðili tilkynntur að hafa ráðist á annan skjólstæðing gistiskýlisins með flösku eftir að sá síðarnefndi sló hann. Þeir báðir mjög ölvaðir og ekki í ástandi til að vera meðal almennings. Báðir voru vistaðir í fangaklefa.
Ökumaður var stöðvaður í umferðinni. Fljótlega vaknaði grunur að hann væri undir áhrifum fíkniefna og var hann því handtekinn. Á honum fannst síðan töluvert magn taflna, smelluláspoka og peninga þar sem grunur vaknaði um sölu fíkniefna. Aðspurður vildi ökumaðurinn ekki heimila lögreglu að skoða farsímann hans. Var hann vistaður í klefa í þágu rannsóknar málsins.
Tilkynnt var um barn sem hafði orðið læst inni í herbergi í íþróttahúsi. Áður en lögregla kom höfðu starfsmenn og foreldrar náð barninu út á heilu og höldnu.
Tilkynnt var um líkamsárás á dyravörð á bar í Hafnarfirði. Sá var mjög ölvaður, óðamála, talaði samhengislaust og andlega veikur en lögreglumenn þekktu hann vegna fyrri afskipta. Hann var vistaður í fangaklefa.
Lögregla fékk tilkynningu um megna klórlykt á stigagangi fjölbýlis þar sem fólk var að hlaupa út úr íbúð í húsinu. Mikil ammoníaklykt var á vettvangi þegar lögregla kom og var slökkvilið fengið til þess að reykræsta íbúðina.
Húsráðandi sagðist hafa verið að úða skordýraeitri inni í íbúðinni til þess að drepa flugur en hann var síðan fluttur til frekari aðhlynningar af sjúkraflutningsmönnum. Við skoðun í íbúðinni fannst vopn og nokkuð magn fíkniefna.