Borgarráð hefur samþykkt að heimila umhverfis- og skipulagssviði að hætta framkvæmdum og segja upp verksamningi við verktaka um viðgerðir og endurbætur á leikskólanum Laugasól, Leirulæk 6.
Þá var sviðinu jafnframt heimilað að láta rífa núverandi hús og hanna nýjan leikskóla á lóðinni. Við framkvæmdir á leikskólanum Laugasól, sem byggður var árið 1965, kom í ljós að jarðvegur sem byggingin er á er ekki burðarhæfur. Þar með voru forsendur fyrir frekari endurbótum brostnar.
Tilboð í endurgerð húss og lóðar voru opnuð 12. mars sl. Fjögur tilboð bárust. Innkaupa- og framkvæmdaráð Reykjavíkurborgar samþykkti að ganga að tilboði lægstbjóðanda, Fortis ehf., að upphæð 793,5 milljónir króna.
Í greinargerð umhverfis- og skipulagssviðs kemur fram að framkvæmdir við viðgerðir og endurbætur á leikskólanum Laugasól hófust í maí 2024. Verkið fólst í breytingum og endurbótum efri hæðar leikskólans ásamt því að fjölga leikstofum með því að breyta niðurgröfnum kjallara í jarðhæð.
Þegar grafið var frá kjallara kom í ljós að engar undirstöður (sökklar) voru undir botnplötu hússins og jarðvegsfylling sem húsið hvílir á var ekki burðarhæf.
Verkfræðistofan Hnit var fengin til að gera úttekt á mannvirkinu og skilaði tveimur skýrslum. Þá var verkfræðistofan Efla fengin til að leggja mat á fýsileika tveggja valkosta. Annars vegar áframhaldandi endurbætur í samræmi við útboðsgögn auk styrkingar á burðarvirki. Hins vegar niðurrif núverandi húss og byggingu nýs leikskóla. Í minnisblaði Eflu var lagt til að velja seinni kostinn.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag