Lögreglan stöðvaði átta bifreiðar í gærkvöld og í nótt þar sem búið var að skreyta þær með jólaseríum og fleiru. Ökumenn bifreiðanna var gert að koma með þær í skoðun.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglunnar vegna verkefna hennar frá klukkan 17 í gærkvöld til 5 í morgun. Alls eru 74 mál bókuð í kerfum lögreglunnar á tímabilinu og gista fimm í fangageymslum nú í morgunsárið.
Lögregla var með ölvunarpóst á Bústaðarvegi og voru 200 ökumenn látnir blása. Tveir ökumenn voru kærðir fyrir ölvunarakstur og nokkrum gert að hætta akstri. Einnig var lögregla með ölvunarpóst við Háskólabíó og voru 150 ökumenn látnir blása. Einum var gert að hætta akstri.
Tilkynnt um þjófnað og eignarspjöll í hverfi 201. Aðili var handtekinn á vettvangi grunaður um verknaðinn og var hann vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.