Unglingar fluttir á milli landa til að fremja brot

Grímur segir gengi ekki jafn skýr fyrirbæri og fólk gæti …
Grímur segir gengi ekki jafn skýr fyrirbæri og fólk gæti haldið. mbl.is/Karítas

Gríðarlegar breytingar hafa átt sér stað í löggæslu á þeim 37 árum sem Grímur Grímsson, nýkjörinn þingmaður og fráfarandi yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar, starfaði í lögreglunni. Aukið ofbeldi og hnífaburður ungmenna er mikið áhyggjuefni og er það Grími hugleikið að reyna að stuðla því að gripið verði fyrr inn hjá börnum sem sýna áhættuhegðun.

Þá er uppgangur glæpagengja og breytt landslag í undirheimunum eitt af því sem lögreglan hefur þurft að takast á við síðustu ár.  

Nýleg dæmi eru um almenningur hafi orðið var við spennu á milli glæpagengja sem hafa verið að hasla sér völl hér á landi. En eitt dæmi er hnífaárásin á skemmtistaðnum Bankastræti Club í fyrra, þar sem 25 voru ákærðir í málinu.

„Það var þarna hópur manna sem réðist að mönnum og það kom svolítið upp á yfirborðið. Það getur verið einhver svona spenna á milli fólks sem er í þessum svokölluðu undirheimum,“ segir Grímur.

Ráða unglinga til að vinna voðaverk

Gengi eru þó ekki alveg jafn skýr fyrirbæri og fólk gæti haldið, að sögn Gríms.

„Í hugum fólks er það oft þannig að maður sé bara í einhverju einu gengi, maður tilheyri einhverju gengi og sé bara alltaf með þeim, en þetta er ekki þannig,“ segir Grímur sposkur á svip og blaðamaður hlær. Því hann hafði einmitt þessa röngu klisjumynd af glæpagengi í huganum.

 „Þetta er meira þannig að eitt gengi eða einn hópur manna getur sérhæft sig í einhverju og jafnvel selt þjónustu á því sviði. Það er vísað til þess í skýrslu til dæmis Europol: „crime as a service“. Það er ekki síst í netbrotum sem það er notað.“

Þessi útvistun glæpa hefur töluvert verið í umræðunni í tengslum við glæpagengi í Svíþjóð sem hafa notast við þetta fyrirkomulag.

„Þar eru einhver gengi og hópar fólks sem hafa verið að ráða unglinga til að vinna voðaverk, jafnvel í öðrum löndum. Það er þá þannig að til dæmis einhver danskur brotamaður fær einhvern brotamann í Svíþjóð til að útvega ungling til að koma yfir brúnna og vinna einhver ofbeldisverk þar.“

Ásókn í að fá að fremja afbrot

Grímur telur að ástæðan fyrir því að þetta hafi þróast svona í Svíþjóð sé að refsingar eru vægari og styttri fyrir ungt fólk sem brýtur af sér. Líkt og á Íslandi þar sem ungur er aldur er refsilækkunarástæða.

„Svo hefur þetta verið að dreifast með þessum hætti til annarra landa; til Noregs og Danmerkur og nýlega til Finnlands. Svo höfum við fengið nasaþefinn af þessu líka. Við höfum séð tengingu við Svíþjóð og afbrotafólk þar. Þau hafa fengið fólk fólk til að vinna verk fyrir sig hér og verið hér.“

Grímur segir þó ekki dæmi um það hér á landi að ólögráða einstaklingar hafi verið fengnir til að fremja afbrot. En þó séu dæmi um ungt fólk hafi verið fengið í slík verkefni. 

„Það er líka ásókn í þetta. Það er ekki bara eftirspurn frá brotamönnunum, það er framboð af fólki sem vill taka þátt. Sérstaklega ungum körlum. En við erum ekki á þeim stað að ungir karlar á Íslandi vilji vera afbrotamenn, það er þá allavega í mjög litlu mæli. Ég held við ættum einmitt að reyna að stöðva þetta þar, búa þannig um hnútana og læra af nágrannaþjóðum okkar, svo slíkt gerist ekki. Þá þurfum við líka að horfa til þess að geta stutt þá sem eru í hættu á að lenda á einhverjum slæmum stað þannig það sé eina sem fólk getur hallað sé að til að fá viðurkenningu.“

Í þessu samhengi er vert að minnast aukna ofbeldishegðun og hnífaburð ungmenna sem hefur verið mikið í umræðunni síðustu mánuði. Grímur segir hafa farið að bera á því fyrir nokkrum árum að ungt fólk væri í meira mæli að bera hnífa. Ástæðan virðist vera sú að fólki finnist það þurfa að geta varið sig. 

„Við höfum margoft talað um það opinberlega að við höfum áhyggjur af þessum hnífaburði. Það sýnir sig líka í því þegar það eru útköll þar sem um er um að ræða vopn, þá er það oftast sérsveitin sem sér um það, en ef það stendur þannig á að þeir komast ekki í það, þá vopnast lögreglan. Þessum útköllum hefur fjölgað og það segir okkur að málum hefur fjölgað þar sem hnífar koma við sögu.“

Slepptu hnífnum, þá beitirðu honum ekki

Grímur vísar til manndrápsmálsins á Menningarnótt, þar sem 16 ára piltur varð 17 ár stúlku að bana og særði tvö önnur ungmenni. Í kjölfarið varð mikil vakning og ákall um að tekið yrði á þessu vaxandi vandamáli og reynt að fyrirbyggja að svona gerðist aftur.

Hann segir málið afar dapurlegt og erfitt að hugsa til þess að þetta hafi þurft að gerast til að vakning yrði um hnífaburð ungmenna.

„Við höfum verið að benda á þessa aukningu og haft áhyggjur af henni. Þetta er mjög einfalt þegar maður segir það, en þegar hnífur er til staðar þá er aukin hætta á að honum verði beitt. Þetta höfum við séð í nokkrum málum, þar sem hnífur er tekinn upp í einhvers konar átökum, sem hefði ekki orðið úrslitaatriði ef hann hefði ekki verið til staðar. Slepptu því bara að vera með hníf, þá muntu ekki beita honum,“ segir Grímur ákveðinn. 

Hann myndi vilja sjá vakningu meðal ungmenna og félagaþrýsting í þessa átt. Að félagar tækju sig saman um að neita að fara með þeim í bæinn sem ætlaði sér að vera með hníf á sér.

„Ég hef haft svo mikinn áhuga á því og lýsti því í kosningabaráttunni, að það sé hægt að taka fyrr inn í mál hjá börnum. Þetta hefur verið vilji lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, þessi snemmtæka íhlutun, og við höfum verið að reyna að koma á vísi að samfélagslöggæslu og það hefur gengið vel. En við höfum viljað fá fjármuni til þess að halda áfram að stækka og auka það viðbragð.“

Samfélagslöggæslan svar lögreglunnar

Grímur segir reyndar nauðsynlegt að auka viðbragð á öllum sviðum innan lögreglunnar. Samfélagslöggæslan sé hins vegar svar við því hvernig lögreglan geti með auknum hætti komið að snemmtækri íhlutun, ef barn sýnir áhættuhegðun.

Þá sé mikilvægt að fá alla að borðinu sem starfa með börnum á einhvern hátt.

„Þarna er spurningin hvort og hvernig við megum deila upplýsingum. Það er ekki alltaf augljóst, en það þarf að leggjast yfir það hvernig við sem heild getum tekið á þessu. Þetta er allavega mitt áhugamál sem er spurning hvort og hvernig ég get unnið að,“ segir Grímur, sem myndi vilja beita sér fyrir því að reyna að liðka til svo auðveldara yrði fyrir ólíka aðila að vinna saman að snemmtækri íhlutun.

Fá ranghugmyndir í gegnum samfélagsmiðla

Spurður út í það hvers vegna ungmennum finnst þau þurfa að bera hnífa til að verja sig, segir hann það að einhverju leyti mega rekja til samfélagsmiðla. Fyrir nokkrum árum hafi borið á því að börn og unglingar hafi skipulagt það að hittast til að beita ofbeldi, eða að lokka einhvern á ákveðinn stað þar sem viðkomandi var beittur ofbeldi, það tekið upp og síðan deilt á samfélagsmiðlum. Það hafi þó tekist að komast nokkuð vel fyrir þetta, en svo virðist sem slík máli komi reglulega upp.

„Maður hefur áhyggjur af því þegar ofbeldi og niðurlæging er skemmtiatriði fyrir aðra. Maður veltir því fyrir sér hvernig er hægt að taka á því, en þarna er að einhverju leyti ein af ástæðunum fyrir því að krakkar eru með hnífa. Maður er narraður eitthvað og það er verið að beita ofbeldi, þá er kannski freistandi að segja að maður þyrfti að hafa hnífinn.“

Þá segir Grímur afstöðu ungs fólks til lögreglunnar hér á landi oft litaða af umræðu um lögregluna erlendis, til dæmis í Bandaríkjunum. Það séu áhrif sem megi rekja til samfélagsmiðla.

„Ég vil leyfa mér að fullyrða að löggæsla á flestum sviðum í Bandaríkjunum sé á allt öðrum stað en hér. Það er ekkert raunverulega samanburðarhæft. Það gætu orðið til ákveðnar ranghugmyndir.“

Það sama eigi við um hnífaburðinn, ungt fólk gæti fengið ranghugmyndir erlendis frá, meðal annars í gegnum samfélagsmiðla, um að það þurfi að ganga með hnífa til að verja sig.

Nánar verður rætt við Grím Grímsson um helgina og munu kaflar úr viðtalinu birtast hér á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert