Talið er að miklir vatnavextir og leysingar á Suðurlandi í gær og í nótt hafi valdið bilun sem kom upp í jarðstreng RARIK frá Holti til Víkur og olli rafmagnsleysi í Vík og Mýrdal um hálfþrjúleytið í nótt.
Bilunin varð í Víkurstreng sem liggur undir Eyjafjöllum og Mýrdalsjökli, að því er segir í tilkynningu.
„Starfsfólk RARIK var sent af stað til Víkur í nótt en erfið færð var á svæðinu og vegir lokaðir. Samráð var haft við björgunarsveitir áður en farið var inn á lokunarsvæðið. Ekki hefur gengið sem skyldi að keyra upp varaaflsvélar sem þegar eru á svæðinu. Efri byggð Víkur er með rafmagn sem kemur frá varatenginu frá Klaustri en erfiðara hefur gengið að koma stöðugu rafmagni á neðri byggðina og Mýrdalinn,“ segir í tilkynningunni.
Fram kemur að von sé á öflugum varaaflsvélum frá Landsneti til Víkur um hádegi í dag. Búist er við að hægt verði að koma tryggu rafmagni á hjá fleiri viðskiptavinum um leið og búið er að tengja þær. Slík tenging er sögð taka um 30-60 mínútur eftir að vélin er komin á staðinn.
„Bilanaleit á Víkurstreng hefur reynst erfið vegna veðurs og vatnavaxta en þó er búið að þrengja það svæði sem bilanaleitin fer fram á og er það nú á u.þ.b. 12 km kafla frá Holti. Vík og Mýrdalur verða keyrð á varaafli þar til búið er að gera við bilunina. Viðgerðin gæti tekið nokkra daga þar sem skilyrði eru erfið en endanleg tímaáætlun mun verða ljósari þegar bilunin finnst. Það tekur einnig tíma að koma efni og mannskap á staðinn, og RARIK þarf einnig að huga að öryggi eigin starfsfólks í þessum aðstæðum,” segir einnig í tilkynningunni.
Fólk er beðið um að fara sparlega með rafmagn meðan varaflskeyrsla stendur yfir, til dæmis að sleppa því að hlaða rafbíla eða nota orkufrek tæki og slökkva á og jafnvel taka úr sambandi rafmagnstæki til að minnka álag á kerfið.