Appelsínugul viðvörun verður í gildi á Norðurlandi eystra til klukkan 7 í dag en þar hefur verið suðvestanstormur og ekkert ferðaveður.
Gul viðvörun verður í gildi á miðhálendinu til klukkan 8 í dag, Ströndum og Norðurlandi vestra til klukkan 9 í dag, Faxaflóa til klukkan 10, Suðurlandi til klukkan 12 og á Suðausturlandi til kl. 14 í dag. Verður talsverð eða mikil rigning og ört hækkandi hitastig. Búast má við miklum leysingum, auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum. Mikil hálka getur myndast.
Veðurspáin fyrir landið í dag er annars á þann veg að spáð er suðvestan 10 til 18 metrum á sekúndu, en hægari vestanlands fyrripart dags. Styttir víða upp með morgninum, skúrir eða slydduél verða síðdegis, en úrkomulítið á Norðausturlandi. Hiti verður á bilinu 3 til 10 stig. Hvessir fyrir norðan í kvöld og kólnar heldur.
Dregur smám saman úr vindi á morgun. Það verður suðvestlæg eða breytileg átt 5-13 m/s síðdegis. Skýjað með köflum og stöku él vestan til, hiti á bilinu 0 til 4 stig. Léttskýjað verður eystra og frost 0 til 5 stig.