Sigmundi Erni Rúnarssyni, verðandi þingmanni Samfylkingarinnar, líst vel á mögulega ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins, sem er einnig oft nefnd „Valkyrjustjórnin.“
Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að formenn flokkanna væru að stefna á að mynda slíka ríkisstjórn fyrir áramót.
„Mér líst afskaplega vel á þann samstarfsmöguleika og tel hann mjög raunhæfan og vona að af honum verði. Vegna þess að þarna eru þrjár atkvæðamiklar konur sem geta látið til sín taka og mér fyndist það einstaklega sögulegt, bæði innanlands og í veröldinni, að þrjár konur leiði ríkisstjórn í lýðræðisríki. Ég held að það hljóti að vera einsdæmi ef af verður,“ segir Sigmundur í samtali við mbl.is.
Hann segir flokkanna standa þétt saman málefnalega í nokkrum veigamiklum málum. Flokkarnir standi ekki endilega saman í öllum málum en það leysist með málamiðlunum eins og gengur og gerist í samsteypustjórnum.
Samfylkingin fékk fjóra menn kjörna í Reykjavíkurkjördæmi norður en Þórður Snær Júlíusson, sem skipaði 3. sæti á listanum og er réttkjörinn, tilkynnti að hann myndi afþakka sæti, yrði hann kjörinn, í kjölfar hneykslismáls sem varðaði gömul skrif hans undir dulnefni um konur.
Sigmundur, sem skipar 5. sæti á listanum, kemst því nokkuð óvænt inn á þing.
Spurður hvaða málefnum hann muni beita sér fyrir næstu fjögur árin segir hann málefni fatlaðs fólks og þroskahamlaðra vera ofarlega á baugi.
„Þau eru mínar ær og kýr og réttindi barna, hvað varðar alla aðkomu að heilbrigðisþjónustu og menntun. Ég vil berjast á þessum póstum til að auka jafnan aðgang sjúkra barna, fatlaðra og þroskahamlaðra til allrar þeirrar þjónustu sem býðst í landinu,“ segir Sigmundur.
Hann kveðst þekkja málaflokkinn persónulega þar sem hann ól upp langveikt og fatlað barn. Þá hefur hann unnið í mörg ár að þáttunum Með okkar augum, en fólk með þroskahömlun vinnur þættina með fagfólki í sjónvarpsgerð.