Spennustöðin í hálfu kafi þegar mest lét

Spennustöð við Ytri-Sólheima.
Spennustöð við Ytri-Sólheima. Ljósmynd/Aðsend

Hálka og rigning með tilheyrandi vatnavöxtum ollu skemmd á streng sem plægður er undir Skógá. Olli það um 15-16 klukkustunda rafmagnsleysi frá Vík og að Brekku í Mýrdal.

Rafmagn komst endanlega á um klukkan 19 í gær.

Í tilkynningu frá RARIK segir að spennustöð við Ytri-Sólheima hafi verið á kafi í vatni og það skýri hvers vegna ekki gekk að keyra á varaafli eins fljótt og til stóð í fyrstu en hægt var að virkja varaafl til þess að koma rafmagni á að nýju um klukkan 19. 

„Þegar mest var hafi staðið vatn upp á hana miðja. Framkvæmdaflokkar RARIK stefna á að meta aðstæður þar í dag til að undirbúa viðgerð en þarna fór t.d. vegur í sundur vegna vatnavaxta.“

Erfiðar aðstæður

Í tilkynningu segir enn fremur að RARIK hafi sett upp aðgerðaáætlun til að gera við strenginn undir Skógá eins fljótt og mögulegt er.

„Áætlunin miðar að því að stytta þann tíma sem keyra þarf varaaflsvélarnar en tryggja jafnframt öryggi starfsfólks. Vegna þess hversu erfiðar aðstæður eru á staðnum og vegna áframhaldandi hlýinda í veðurspám er enn ekki ljóst hvenær hægt verður að hefja eða ljúka viðgerðinni.“

Hvattir til að spara rafmagn

Í tilkynningu segir að varaaflskeyrsla sé mannaflafrekt verkefni þar sem vakta þarf vélarnar allan sólarhringinn og stýra þeim miðað við notkun.

„Auk þess er varaafl viðkvæmt fyrir álagi og getur því dottið út ef álag eykst skyndilega. Af þeim sökum eru viðskiptavinir beðnir um að fara sparlega með rafmagn eins og mögulegt er, sérstaklega þegar gera má ráð fyrir álagstoppum, t.d. á morgnana og í kvöldmatartíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert