„Miðað við daginn í dag“ þá verður mynduð stjórn

Þorgerður segir að viðræður hafi gengið vel í dag.
Þorgerður segir að viðræður hafi gengið vel í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir að það sé góður gangur í stjórnarmyndunarviðræðum Viðreisnar, Samfylkingar og Flokks fólksins.

Eftir daginn í dag telur hún ástæðu til að ætla að ríkisstjórn verði mynduð fyrir áramót.

Þetta segir Þorgerður í samtali við mbl.is í Smiðju, skrifstofuhúsnæði Alþingis. 

Viðræðurnar gengið misvel

Spurð hvort að hún telji, rétt eins og formaður Samfylkingarinnar, að flokkarnir muni ná að mynda ríkisstjórn fyrir áramót segir Þorgerður:

„Já, miðað við daginn í dag. Ég hef bara horft á þetta einn dag í einu og þeir hafa gengið misvel dagarnir, ég ætla bara að vera heiðarleg með það. En þessi dagur í dag var mjög góður og veit á gott,“ segir Þorgerður.

Vinnuhópar gætu klárað á föstudag

Alls hafa sex vinnuhópar með mismunandi málefnasvið tekið til starfa í stjórnarmyndunarviðræðunum og Þorgerður segir að þeim gangi vel.

Hugsanlega munu þeir klára störf á föstudaginn en Þorgerður útilokar ekki að vinnuhópunum muni fjölga.

Meðal málefnasviða vinnuhópanna eru ríkissjóður, húsnæðismálin, heilbrigðismálin, menntamál og gervigreind.

Fólk í öllum flokkum sem getur sinnt öllum ráðherraembættun

Þorgerður segir að enn sé ekki byrjað að ræða skiptingu ráðuneyta. Margir segja Þorgerði sitja með pálmann í höndunum og þá hefur hún þótt líkleg til þess að verða næsti forsætisráðherra samkvæmt veðbönkum.

Spurð hvort að hún geri tilkall til þess að verða forsætisráðherra segir hún:

„Við sjáum bara hvað setur en meginmálið er að það verði hér – eins og við í Viðreisn sögðum alla kosningabaráttuna – samhent ríkisstjórn sem gengur í verkin og gefi út þá tóna að við ætlum að taka þetta hlutverk okkar alvarlega, um það að lækka verðbólgu og lækka vexti,“ segir Þorgerður og bætir við: 

„Það er mesta kjarabótin fyrir íslensk heimili og þar erum við með augun á boltanum og svo bara sjáum við hvað setur. Ég sé að minnsta kosti mjög öflugt fólk í kringum alla þessa flokka sem getur sinnt öllum ráðherraembættum með miklum sóma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert