2,2 milljarðar í lækna og lyf

Heildarkostnaður vegna læknisþjónustu hælisleitenda frá miðju ári 2022 til nóvember …
Heildarkostnaður vegna læknisþjónustu hælisleitenda frá miðju ári 2022 til nóvember í ár, þ.e. á tæplega tveimur og hálfu ári, er orðinn alls 2.060 milljónir. Ljósmynd/Colourbox

Heildarkostnaður vegna læknisþjónustu hælisleitenda frá miðju ári 2022 til nóvember í ár, þ.e. á tæplega tveimur og hálfu ári, er orðinn alls 2.060 milljónir og lyfjakostnaður vegna þessa hóps var 148 milljónir á sama tímabili.

Þetta kemur fram í svari Vinnumálastofnunar, VMST, við fyrirspurn Morgunblaðsins.

VMST hefur á fyrstu 11 mánuðum þessa árs greitt tæpar 555 milljónir króna í lækniskostnað af ýmsu tagi fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd og sé lyfjakostnaður meðtalinn fer fjárhæðin í ríflega 601 milljón. Þetta er þó umtalsvert lægri fjárhæð en í fyrra, þegar tæpar 1.100 milljónir voru greiddar fyrir lyf og læknisþjónustu hælisleitenda.

Í svari VMST kemur einnig fram að læknis- og lyfjakostnaður vegna ársins 2022 hafi numið rúmum 507 milljónum, en þess ber að geta að VMST tók við þessu verkefni frá Útlendingastofnun um mitt ár 2022, þannig að fjárhæðin tekur einungis til 6 mánaða tímabils.

Umsækjendur um alþjóðlega vernd fá nauðsynlega heilbrigðisþjónustu

Reglur VMST mæla fyrir um að umsækjendur um alþjóðlega vernd fá nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, fyrstu heilsufarsskoðun og lyfseðilsskyld lyf greidd að fullu. Önnur læknisþjónusta, svo sem tannlækningar eða aðgerðir sem ekki er brýn þörf á, stendur utan þeirrar þjónustu og er ekki veitt nema að undangengnu mati trúnaðarlæknis VMST. Þó er greidd tannlæknaþjónusta fyrir fullorðna í neyðartilvikum, en börn undir 18 ára aldri fá alla almenna tannlæknaþjónustu greidda að fullu, að tannréttingum undanskildum.

Kostnaður sem fellur undir liðinn „læknaþjónusta“ er ekki sundurgreindur sérstaklega, en hann er langhæsti einstaki kostnaðarþátturinn. Hann stendur nú í 477 milljónum fyrir fyrstu 11 mánuði þessa árs, en var tæpar 900 milljónir í fyrra. Árið 2022 var þessi fjárhæð um 456 milljónir, en tekur þó einungis til seinni hluta ársins.

Næsthæstu greiðslurnar hafa farið í tannlæknakostnað; eru orðnar tæpar 60 milljónir það sem af er þessu ári. Í fyrra var kostnaðurinn 95,5 milljónir en 22 milljónir tæpar síðari hluta ársins 2022.

Kostnaður vegna augnlækninga nemur rúmum 10 milljónum frá miðju ári 2022 til nóvember í ár, vegna heyrnarlækninga 6,3 milljónum og sjúkraþjálfunar rúmum 36 milljónum.

Heildarkostnaður vegna lyfja og læknisþjónustu hælisleitenda á tæpu hálfu þriðja ári er því um 2.208 milljónir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert