„Þetta stríð er búið að standa yfir í tvö ár og fyrir tveimur mánuðum var taugakerfið farið að gefa sig og geðheilsan við það að bresta. Þetta er búið að vera alveg skelfilegt,“ segir Guðrún Hrólfsdóttir, íbúi í Árskógum 7, um ónæði af byggingaframkvæmdum vöruhúss við Álfabakka sem verið er að reisa og Morgunblaðið sagði frá í gær.
Guðrún keypti sína íbúð í júní 2021 og segist ekki hafa ímyndað sér að slíkt ferlíki myndi rísa fast upp við íbúðina hennar.
„Þegar ég skoðaði íbúðina var mér bara sagt að það yrði byggt þarna. Ég var ósköp róleg yfir því, þar sem ég hélt að það yrði eitthvað hóflegt.“
Íbúðin snýr í norðvestur og segist Guðrún hafa náð kvöldsólinni og morgunsólinni þegar hún fékk íbúðina afhenta.
„Ég missi allt útsýni, kvöldsólina og mikla birtu út af þessari byggingu.“
Spurð hvort hún horfi núna bara á kaldan vegginn segir Guðrún að veggurinn sem snúi að henni sé grænn.
„Þeir voru svo sniðugir að hafa þennan vegg grænan, sennilega til að minna mann á gróðurinn. Útsýnið sem ég hafði var hvorki mikið né sérstaklega spennandi, en fyrir sálina hefur víðáttan gríðarlega mikið að segja.“
Guðrún er komin á eftirlaunaaldur og segir að ónæðið af framkvæmdunum hafi orðið til þess að hún ákvað að fara út af heimilinu.
„Ég tók að mér að gerast dagmamma til þess að þurfa ekki að vera heima. Ég hefði ekki haldið út frá kl. 7 á morgnana til 7 á kvöldin sex daga vikunnar. Ég keypti þessa íbúð til að hafa það rólegt. Sonur minn býr í næstu blokk og systir mín líka og það er notalegt að hafa fjölskylduna svona nálægt sér þannig að ég lét mig hafa þetta.“
Hún hefur byrgt gluggana til að skerma sig frá byggingaframkvæmdunum þar sem nálægðin við húsið er svo mikil. Menn eru að störfum á daginn og með ljóskastara, þannig að þetta hefur valdið verulegu ónæði.
„Það sem hefur verið verst er hávaðinn og lætin í gröfunum og jarðýtunni frá kl. 7 á morgnana til 7 á kvöldin. Þetta var gríðarlegt ónæði, hávaði og fyrirferð. Þeir söfnuðu upp jarðvegi fast upp við húsið og mér fannst ég nánast vera komin í gröfina þegar bingurinn stóð sem hæst.“
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag