Skráðum einstaklingum í þjóðkirkjuna fækkaði um 939 á síðustu 12 mánuðum og hefur hlutfall þeirra lækkað úr 56,7% í desember í fyrra í 55,4% í desember í ár. Þjóðkirkjan er þó enn lang stærsta trú- eða lífsskoðunarfélagið á landinu og eru 224.963 skráðir í þjóðkirkjuna samkvæmt skráningu Þjóðskrár. Tæplega 30% landsmanna eru með ótilgreinda skráningu eða skráðir utan trú- eða lífsskoðunarfélags.
Næst fjölmennasta félagið er Kaþólska kirkjan með 15.548 skráða félaga, en félögum þar fjölgaði um 231 milli ára, eða um 1,5%. Þriðja stærsta trú- og lífsskoðunarfélagið er Fríkirkjan í Reykjavík með 9.935 skráða félaga. Þar fækkaði félögum um 23 milli ára, eða 0,2%.
Sem fyrr segir er þjóðkirkjan stærsta trú- og lífsskoðunarfélag landsins og eru 55,4% íbúa landsins skráðir í félagið. 14,9% landsmanna eru skráðir í önnur trú- og lífsskoðunarfélög og helst sú tala óbreytt milli ára.
Hins vegar hækkar nokkuð hlutfall þeirra sem eru með ótilgreinda skráningu. Þar er um að ræða þá sem ekki hafa tekið afstöðu til skráningar í trú- eða lífsskoðunarfélag. Samtals eru 89.935 með slíka skráningu hjá Þjóðskrá. Hækkar hlutfallið úr 20,8% í fyrra í 22,1% á þessu ári.
Þeir sem eru skráðir utan trú- og lífsskoðunarfélaga voru 30.779 í desember, en þeim hefur fjölgað um 0,7% á milli ára. Hins vegar hefur hlutfall þeirra sem eru skráðir utan félags lækkað úr 7,7% í 7,6% af heildarfjölda landsmanna. Ef að einstaklingur er utan trú- eða lífsskoðunarfélaga þá hefur sá einstaklingur tekið afstöðu til þeirrar skráningar sinnar.
Yfir síðasta ár hefur fjölgað mest í Siðmennt, eða um 348 félaga. Mest hlutfallsleg fjölgun var hjá Samfélagi Ahmadiyya-múslima á Íslandi, eða um 57,1%. Hins vegar eru félagar þar ekki nema 11 í það heila. Sé hins vegar skoðað hvar hlutfallsleg fjölgun er mest hjá trú- eða lífsskoðunarfélagi með fleiri en 500 félaga eru það Stofnun múslima á Íslandi, þar sem fjölgaði um 17,4% milli ára og eru félagar nú 770, og hjá ICCI (Islamic cultural center of Iceland) þar sem fjölgaði um 20,6% og eru félagar þar nú 586.
Fyrir utan þjóðkirkjuna fækkaði mest í félaginu Zuism, en þar fækkaði félögum um 59 manns milli ára, eða um 12,4%. Eru félagar þar nú 418. Félagið vakti mikla athygli þegar mikill fjöldi manns skráði sig í það með það fyrir augum að endurgreiða ætti sóknargjöld til félaga. Hins vegar tóku upphaflegir stofnendur þess aftur yfir félagið og voru þeir í mars á þessu ári dæmdir fyrir fjársvik og peningaþvætti.
Voru þeir meðal annars fundnir sekir um að svíkja ríflega 85 milljónir frá ríkinu í formi sóknargjalda, en þeir fjármögnuðu persónulega neyslu sína með sóknargjöldum. Þá voru eignir þeirra upp á tugi milljóna gerðar upptækar, bæði hér á landi og í erlendum félögum. Bræðurnir óskuðu eftir áfrýjunarleyfi hjá Hæstrarétti og hefur rétturinn ákveðið að taka málið fyrir, en það er ekki enn komið á dagskrá.