Þorgerður María Þorbjarnardóttir, formaður Landverndar, segir það hljóta að teljast misbeitingu á umboði að teknar séu ákvarðanir um stefnumarkandi mál á meðan eiginleg ríkisstjórn hafi ekki meirihlutaumboð við lýði.
Um er að ræða þrjú mál sem Landvernd gagnrýnir að starfsstjórn hafi tekið afdrifaríkar ákvarðanir um.
Í fyrsta lagi þá ákvörðun umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins að fella úr gildi átta friðlýsingar og setja í rammaáætlun að nýju. En Guðlaugur Þór Þórðarson sagði formgalla á friðlýsingunum og því hefði þurft að beina virkjanakostum innan friðlýstu svæðanna aftur til rammaáætlunar.
Landvernd segir ekki hafa verið þörf á að afnema friðlýsingar á landsvæðum í eigu ríkisins og fer fram á að kostirnir njóti forgangs í afgreiðslu og að friðunin sé samþykkt með réttum hætti á þingi.
Einnig er gagnrýnd sú ákvörðun Sigurðar Inga Jóhannssonar að staðfesta svæðisskipulag Suðurhálendisins, en Landvernd fer fram á að staðfestingin verði dregin til baka og málið lagt fyrir ráðherra skipulagsmála í nýrri ríkisstjórn.
Þá lýsa Landvernd, ásamt Náttúruverndarsamtökum Íslands, Ungum umhverfissinnum, Hvalavinum, Félagi grænkera og Dýraverndarsamtökum Íslands, furðu sinni vegna ákvörðunar Bjarna Benediktssonar að veita þrjú hvalveiðileyfi til fimm ára.
Þorgerður María segir lýðræðinu ekki sýnd virðing og gengið sé gegn hagsmunum loftslags, náttúru og dýravelferðar.
Fram hefur þó komið að fordæmi er fyrir því að ráðherra í starfsstjórn gefi út leyfi til hvalveiða.
Þá hefur Bjarni sagt þetta „eðlilega stjórnsýslu sem þarf að ganga fyrir sig í starfsstjórn eins og öðrum ríkisstjórnum“.